Segir Ríkisendurskoðun fara með rangt mál

Dagur B. Eggertsson er spurður út í lóðaskipulag í tengslum við RÚV í Efstaleiti í nýjasta þætti Spursmála.

Árið 2015 réðst borgin í breytingar á skipulagi á lóð við hlið Útvarpshússins en það gerði ríkisstofnuninni kleift í kjölfarið að selja byggingarrétti þar og hagnaðist um 1,5 milljarða króna með viðskiptunum. Var þetta gert á sama tíma og ljóst var að rekstrarerfiðleikar voru að sliga stofnunina.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um málið. Hún var send Alþingi árið 2019 og þar segir meðal annars um þá ráðstöfun borgarinnar:

Lítill afrakstur borgarinnar

„Þegar litið er til framangreinds er athyglisvert að árið 2015 hafi Reykjavíkurborg gengið til áðurnefnds samnings við RÚV ohf. um lóðarréttindi og byggingarétt á lóðinni við Efstaleiti án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða og því að gera lóðina byggingarhæfa. Einnig vekur athygli hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar.“

Er trúnaðarmaður Alþingis nokkuð afgerandi í þeim ályktunum sem hann dregur af málinu sem þarna ræðir um, þ.e. að „bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess“.

Taki ekki tillit til eldri samnings í úttekt sinni

Dagur segir að Ríkisendurskoðun fari vill vega.

„Því 20 árum fyrr leysti borgin til sín nyrsta hluta útvarpslóðarinnar þar sem nú er lögfræðistofa, heilsugæsla og svo framvegis. Þá var gerður samningur um að RÚV afsalaði sér þessum gæðum með ákvæðum um að borgin gæti ekki gert neitt frekara tilkall til lóðar RÚV. Að því leyti var upphafsstaðan í þessum samningum ólík öllum öðrum af því að þessi samningur var til,“ segir Dagur.

Sett í samhengi við bensínstöðvamálið

Þetta mál hefur verið rifjað upp í tengslum við ráðstöfun lóða sem nýttar hafa verið undir bensínstöðvar í borgarlandinu síðustu ár og áratugi. Á þeim tíma þegar Dagur var borgarstjóri voru gerðir stórir samningar við olíufélögin um að þeim væri heimilt að umbreyta þessum lóðum, fjarlægja bensínstöðvar sínar og skipuleggja gríðarlega uppbyggingu á atvinnu- og íbúðarhúsnæði sem að öllu óbreyttu mun færa þeim milljarða ágóða.

Viðtalið við Dag má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert