Áætlar að tíu fyrirtæki hafi orðið fyrir verulegu tjóni

Aðstæður á vettvangi í gær.
Aðstæður á vettvangi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, áætlar að um tíu verslanir hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna eldsvoðans sem kom upp í austurhluta Kringlunnar síðdegis í gær.

Kringlan verður lokuð í dag en rekstrarfélag Kringlunnar tilkynnti fyrirtækjaeigendum um það í morgun.

„Það var tekin ákvörðun um það að Kringlan yrði lokuð í dag af öryggisástæðum. Það má segja að þessi ákvörðun hafi verið óumflýjanleg í ljósi aðstæðna,“ segir Inga Rut í samtali við mbl.is.

Inga Rut er framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Inga Rut er framkvæmdastjóri Kringlunnar. Ljósmynd/Aðsend

Stór hluti byggingarinnar í lagi

Inga Rut segir að í fljótu bragði sýnist henni að um tíu fyrirtæki hafi orðið fyrir miklu tjóni og þá aðallega af völdum vatns, en talsvert vatn flæddi um bygginguna eftir slökkvistarfið sem lauk klukkan eitt í nótt.

„Þetta er aðallega vatnstjón en það er ein verslun með brunatjón. Nú tekur við hreinsunarstarf hjá fyrirtækjaeigendum en sem betur fer er stór hluti byggingarinnar í lagi,“ segir Inga Rut.

Hún segir að það hafi verið ósk sumra fyrirtækja um að fá að opna í dag en niðurstaðan hafi verið að gera það ekki. Kringlan er að venju ekki með opið á þjóðhátíðardaginn, sem er á morgun, en það mun skýrast á morgun hvort hægt verði að opna verslunarmiðstöðina á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert