Fengu lóðirnar í Gufunesi á miklum afslætti

Dagur B. Eggertsson, fyrrum borgarstjóri og núverandi formaður borgarráðs, segir ekkert athugavert við eignasölu í Gufunesi sem átti sér stað árið 2016. Þá fékk fyrirtækið GN Studios, sem er í eigu Baltasars Kormáks, gömlu áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, ásamt byggingarrétti á íbúðar- og atvinnuhúsnæði upp á yfir 30 þúsund fermetra, fyrir um 1,64 milljarða króna.

10% eða 27% afsláttur

Tveir fasteignasalar höfðu unnið verðmat á þessum eignum og miðaði borgin við lægra verðmætið auk 10% afsláttar. Sé litið til hærra verðmatsins nemur afslátturinn hins vegar 27%.

Sömdu fyrst um uppbyggingu - svo um verðið

Dagur svarar fyrir þessi viðskipti í nýjasta þætti Spursmála. Hann gefur þar lítið fyrir þá spurningu að jafnræðis hafi ekki verið gætt við þessi viðskipti, jafnvel þótt ljóst sé að fyrst hafi verið samið við GN Studios um uppbygginguna og síðan hafi verðið verið ákveðið.

Margir samningar sem nema milljörðum

Orðaskiptin um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en í þættinum er meðal annars rætt um umdeilda samninga borgarinnar við olíufélögin þar sem þau hafa fengið heimild til þess að breyta bensínstöðvalóðum í byggingarland sem tryggir félögunum gríðarleg verðmæti í byggingarrétti. Með sama hætti er rætt um samninga borgarinnar við RÚV sem tryggði ríkisfjölmiðlinum milljarðatekjum. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við þann samning og fullyrt að borgin hafi með samningunum afhent RÚV verðmæti á undirverði.

Viðtalið við Dag. B. Eggertsson má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert