„Of algengt að við séum að fara í svona útköll“

Slökkviðsmenn að störfum í Kringlunni í gær.
Slökkviðsmenn að störfum í Kringlunni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir að líklegasta skýringin á eldsvoðanum sem upp kom í þaki Kringlunnar í gær hafi verið sú að iðnaðarmenn voru að störfum við að bræða tjörupappa rétt áður en eldurinn blossaði upp.

„Það var starfsemi í gangi við þakið og það er líklegasta skýringin að eldurinn hafi komið upp út frá þeirri vinnu. Það er því miður of algengt að við séum að fara í svona útköll og ég held að það væri mjög gott á komandi dögum eða vikum að við og tryggingarfélögin munum setjast niður og reyna að læra enn og aftur af svona atburði,“ segir Jón Viðar.

Þarf að auka eftirlit með verktökum?

„Við þurfum kannski að koma upp kerfi svipað því og er á Norðurlöndunum þar sem ákveðnir aðilar sem hafa gengið í gegnum stranga þjálfun fái að vinna við þetta. Ég er þar með ekki að segja að þeir sem voru vinna við þakið í gær hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Það þarf að huga þessu.“

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Viðar segir að í ansi mörgum tilvikum hafi eldur kviknað í kjölfar þess þegar verið er að bræða tjörupappa og það sé skylda slökkviliðsins og þeim sem koma að brunamálum að reyna að fækka þeim tilvikum.

Leist ekkert á blikuna á tímabili

Jón Viðar segir að betur hafi farið en á horfðist á tímabili en þó sé ljóst að verulegar skemmdir hafa orðið í mörgum verslunum í Kringlunni.

„Okkur leist ekkert á blikuna á tímabili en þegar maður sér þetta eftir að búið er að slökkva þá er ótrúlegt að þetta hafi ekki orðið verra. Við hringdum út eftir öllu okkar fólki sem var á frívakt og þar var ótrúleg góð mæting þrátt fyrir að í gangi væri stór útskriftardagur og veðurblíða.“

Jón Viðar segir að þeir sem voru vettvangsstjórar í gær hafi farið að skoða aðstæður í Kringlunni í morgun.

„Þegar maður skoðar þakið eitt og sér þá er maður bara mjög sáttur með hvernig menn náðu að halda utan um þetta. Verkefnið var flókið og þetta hefði getað farið mun verr,“ segir Jón Viðar við mbl.is.

Hann segir að nú séu verktakar að klára að rífa frá og hreinsa upp ull sem er á plötunni og er orðin gegnsósa.

„Við fórum líka inn í Kringluna og þar blasti við okkur mikið tjón bæði út frá vatni og reyk. Sú starfsemi sem er í Kringlunni er mjög viðkvæm fyrir bæði vatni og reyk.“

Jón Viðar segir að búðareigendum hafi verið hleypt inni í Kringluna í gær til að vitja eigna sinna og það hafi verið mikilvægt fyrir þá að fá tækifæri til þess. Hann segir mikla vinnu eftir og það sé ljóst að það séu verslanir sem þurfi að fara í umtalsverðar lagfæringar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert