Telja dóm Hæstaréttar rangan

Ragnheiður og Brynhildur gagnrýna Hæstarétt.
Ragnheiður og Brynhildur gagnrýna Hæstarétt. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Inga

Brynhildur G. Flóvenz, dósent emerita við lagadeild Háskóla Íslands, og Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við sömu lagadeild, telja dóm Hæstaréttar í máli Brynjars Joensen Creed, sem féll í lok janúar, rangan. Þær vonast til að fordæminu verið snúið við.

Brynjar, sem er á sextugsaldri, var ákærður fyrir margvísleg kynferðisbrot gegn börnum. Landsréttur dæmdi hann í sjö ára fangelsi fyrir brot gegn fimm grunnskólabörnum. Þremur ákæruliðum, sem hann var sakfelldur fyrir í Landsrétti, var áfrýjað til Hæstaréttar.

Þeir ákæruliðir sem Hæstiréttur tók fyrir varða kynferðisbrot Brynjars gegn þremur 13 og 14 ára stúlkum án þess að hann væri viðstaddur. Brynjar fékk stúlkurnar til að viðhafa kynferðislegar athafnir gagnvart sjálfum sér og hver annarri, taka athafnirnar upp á myndband og senda sér.

Eina stúlkuna fékk hann til að stinga fingri í endaþarm sinn og senda sér myndband af því. Hann gaf henni einnig áfestanlegan gervilim og fékk hana og aðra stúlku til að nota hann þannig að önnur þeirra festi liminn á sig og hafði kynmök við hina með limnum. Þær sendu svo Brynjari myndband af því. Þriðju stúlkuna fékk Brynjar til að fróa sér með notkun kynlífstækis sem hann gaf henni og senda sér myndband af því.

Ákært var fyrir nauðgun skv. 1. mgr. 194. gr. hegningarlaga og kynferðisbrot gegn börnum yngri en 15 ára skv. 1. mgr. 202. gr. sömu laga. Hæstiréttur taldi ákvæðin ekki eiga við og sakfelldi þess í stað fyrir kynferðislega áreitni skv. 2. mgr. 202. gr. hegningarlaga.

Hæstiréttur kvað dóm sinn upp í lok janúar.
Hæstiréttur kvað dóm sinn upp í lok janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn undir 15 ára geta ekki veitt samþykki

Úrlausnarefnið í ákæruliðunum þremur, sem Hæstiréttur tók fyrir, snúast um það hvernig eigi að túlka hugtakið önnur kynferðismök.

1. mgr. 194. gr. fjallar um nauðgun. Þar kemur fram að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans hafi gerst sekur um nauðgun. Þegar um er ræða nauðgun á barni yngra en 15 ára er 1. mgr. 202. gr. beitt með 1. mgr. 194. gr., en 1. mgr. 202. gr. leggur algjört bann við samræði eða öðrum kynferðismökum við börn yngri en 15 ára. Börn á þeim aldri geta því ekki veitt samþykki til samræðis eða annarra kynferðismaka.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til tveggja grunnreglna í refsirétti, reglunnar um lögbundnar refsiheimildir og reglunnar um skýrleika refsiheimilda. Reglurnar eru náskyldar. Meðal annars með vísan til þeirra telur Hæstiréttur ekki rétt að fella brot Brynjars undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr.

„Refsiheimild skal einnig vera svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri laga-ákvæðis hvaða háttsemi sé refsiverð,“ segir Hæstiréttur.

„Í ljósi reglunnar um lögbundnar refsiheimildir veitir orðalag 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga ekki það svigrúm til túlkunar að fella megi þá háttsemi sem ákært er fyrir í ákæruliðum 3, 5 og 7 undir önnur kynferðismök samkvæmt þessum ákvæðum,“ segir enn fremur í forsendum Hæstaréttar.

Orðalag þurfi að vera almenns eðlis

Brynhildur og Ragnheiður skrifuðu nýlega grein um dóminn sem birtist í vefriti Úlfljóts, tímariti laganema. Þar komast þær að þeirri niðurstöðu að brot Brynjars falli undir hugtakið önnur kynferðismök í skilningi 1. mgr. 194. gr. hegningarlaga og 1. mgr. 202. gr. sömu laga. 

Ragnheiður og Brynhildur skrifuðu grein um dóminn. Greinin birtist í …
Ragnheiður og Brynhildur skrifuðu grein um dóminn. Greinin birtist í Úlfljóti, tímariti laganema. mbl.is/Inga

Árið 2007 var gerð breyting á nauðgunarákvæðinu. Í grein sinni benda Brynhildur og Ragnheiður á að í athugasemdum með breytingarfrumvarpinu komi meðal annars fram að eðlilegt sé að undir hugtakið önnur kynferðismök falli sú háttsemi geranda að láta þolanda fróa sér. Hins vegar hafi ríkissaksóknari gert athugasemdir við að ekki hafi verið minnst á það þegar gerandi lætur þolanda fróa sjálfum sér eða þegar gerandi lætur tvo þolendur hafa kynmök saman. Höfundar frumvarpsins hafi bent á að upptalning í frumvarpinu á dæmum um önnur kynferðismök væri ekki tæmandi. Ekkert væri því til fyrirstöðu að fella umrædda háttsemi undir hugtakið.

Brynhildur og Ragnheiður telja því ljóst að Hæstiréttur hefði átt að sakfella Brynjar fyrir nauðgun. Hugtakið önnur kynferðismök nái til þeirrar háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Þær telja Hæstarétt gera auknar kröfur til skýrleika refsiheimilda umfram það sem megi leiða af réttarheimildum sem reglan sækir stoð sína í.

„Það er þannig með þessi lagaákvæði að það er ekki hægt að telja upp öll tilvik sem geta fallið undir þau. Þess vegna þarf orðalagið að vera almenns eðlis þannig að það séu allskonar tilvik sem geta fallið undir og líka kannski tilvik sem við getum ekki séð fyrir þegar lögin eru sett,“ segir Ragnheiður.

Brynhildur bendir á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki talið það nauðsynlegt að sjá megi eingöngu af lestri refsiákvæðis hvað undir það falli heldur einnig af túlkun dómstóla og aðlögun að breyttum aðstæðum.

Eins og áður segir voru brotin heimfærð undir ákvæði hegningarlaga um kynferðislega áreitni gegn börnum undir 15 ára. Ragnheiður og Brynhildur benda á að háttsemin samsvari ekki fyrri skilgreiningum Hæstaréttar á hugtakinu kynferðisleg áreitni. Túlka þær því niðurstöðu Hæstaréttar þannig að Brynjar beri aðeins refsiábyrgð á þeim þætti háttseminnar sem fólst í því að fá brotaþola til að senda sér myndböndin.

Brynhildur bendir á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki talið það …
Brynhildur bendir á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki talið það nauðsynlegt að sjá megi eingöngu af lestri refsiákvæðis hvað undir það falli. Ljósmynd/Evrópuráðið

Skiptir nálægð máli?

Í forsendum Hæstaréttar kemur fram að nokkur tími hafi liðið frá því að Brynjar fékk stúlkurnar til að viðhafa kynferðislegu athafnirnar og þar til hann fékk myndskeiðin send. Ekki kemur fram hve langur sá tími var. 

Í Hæstaréttardómi sem féll árið 2010 var maður meðal annars sakfelldur fyrir að neyða sambúðarkonu sína til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum mönnum, en hann ljósmyndaði kynmökin eða tók þau upp á myndband og tók iðulega þátt í þeim. Vísað er til þessa dóms í máli Brynjars. Hæstiréttur segir að ekki sé hægt að leggja háttsemi Brynjars að jöfnu við þá háttsemi sem taldist önnur kynferðismök í dómnum frá 2010, því þar hefði ákærði verið staddur í sama rými og brotaþoli og neytt hana til kynmaka með öðrum. 

Brynhildur og Ragnheiður velta fyrir sér hvort nálægð skipti máli:

„Hér vaknar spurningin um nálægð, þ.e. þurfa allir aðilar, gerandi og brotaþoli/brotaþolar, að vera á sama stað eða er unnt að fremja brotið í gegnum netið eða aðra fjarskiptamiðla, þannig að gerandi sé á öðrum stað en brotaþolar? Sé viðurkennt að aðilar þurfi ekki að vera á sama stað, vaknar í framhaldinu sú spurning hvaða þýðingu fjarlægð og tími hafi, þ.e. er það skilyrði refsiábyrgðar að gerandi horfi á verknaðinn í beinu streymi eða nægir að hann fái sent myndband af honum eftir á?,“ segir í grein þeirra.

Þær vísa í tvo dóma. Í fyrsta lagi í Hæstaréttardóm þar sem ákærði þóttist vera 17 ára og viðhafði kynferðislegt tal á netinu við 15 ára dreng og fékk hann til að senda sér mynd af kynfærum sínum. Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar með því að hafa daginn eftir hótað að dreifa myndinni og samskiptum þeirra ef drengurinn hefði ekki kynmök við hann fyrir kl. 23 þá um kvöldið. Meirihluti Hæstaréttar sakfelldi fyrir tilraun til nauðgunar. Í öðru lagi vísa þær í Landsréttardóm þar sem ákærði var sakfelldur fyrir nauðgun. Hann hótaði brotaþola að birta opinberlega kynferðislegar myndir af henni og þvingaði hana þannig til kynmaka við aðra karlmenn og lét hana taka upp og senda sér myndir, myndupptökur eða hljóðupptökur af þessum samskiptum. 

Ragnheiður og Brynhildur segja Brynjar hafa beitt yfirburðastöðu sinni og ólögmætri nauðung til að fá stúlkurnar til athafnanna. Þær hafi verið undir nauðungaráhrifum hans þegar þær hafi tekið sig upp á myndband í kynferðislegum athöfnum.

„Þær eru undir nauðungaráhrifum ákærða og orsakatengsl eru á milli háttsemi hans og kynferðislegra athafna þeirra gagnvart sjálfum sér. Nauðungaráhrifin vara enn þegar þær viðhafa háttsemina, enda gera þær þetta vegna tilmæla frá honum. Saknæmiskröfum er einnig fullnægt þar sem ákærði hefur ásetning til að beita ólögmætri nauðung og fá brotaþola til háttseminnar.“

Þarf að breyta lögum?

Í dómi sín­um tek­ur Hæstirétt­ur fram að sú þróun sem orðið hafi með auk­inni net­notk­un barna og breyttu sam­skipta­mynstri þeirra í milli og við aðra með notk­un sam­skipta­for­rita og sam­fé­lags­miðla geri þau ber­skjölduð gagn­vart kyn­ferðis­legri hátt­semi á þess­um vett­vangi. Seg­ir svo í for­send­um dóms­ins:

„Þrátt fyr­ir þessa þróun og ótví­ræða skyldu lög­gjaf­ans til að vernda börn gegn hvers kon­ar mis­notk­un, þar á meðal kyn­ferðis­legri, verður ekki með skýr­um hætti ráðið að orðalag 1. mgr. 194. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga og 1. mgr. 202. gr. þeirra end­ur­spegli þá þróun og nái til þeirr­ar hátt­semi að fjar­stadd­ur ger­andi fái ann­an mann, í til­viki brotaþola, barn, til þess að fróa sjálfu sér eða eiga kyn­ferðismök við aðra og fái síðar mynd­skeið sent af því.“

Í grein Brynhildar og Ragnheiðar er bent á þá hagsmuni sem vegast á við mat á skýrleika refsiheimilda, sem hér eru annars vegar hagsmunir ákærða af að vera ekki refsað fyrir aðra háttsemi en þá sem er refsiverð samkvæmt lögunum skýrðum í samræmi við tilgang sinn og hins vegar hagsmunir barnanna að njóta viðeigandi réttarverndar.

Ragnheiður og Brynhildur segja ekki endilega nayðsynlegt að lögum verði …
Ragnheiður og Brynhildur segja ekki endilega nayðsynlegt að lögum verði breytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í kjölfar dómsins óskaði dóms­málaráðuneytið eft­ir til­lög­um frá réttar­fars­nefnd í tengsl­um við end­ur­skoðun hegn­ing­ar­laga.

Að sögn Ragnheiðar og Brynhildar eru ákvæði hegningarlaganna stutt, hnitmiðuð og almennt orðuð, eins og í Danmörku. Í norskum og sænskum rétti séu ákvæði hegningarlaga hins vegar ítarlegri og lengri. Þær eru ekki endilega á því að ráðast þurfi í lagabreytingar á íslensku hegningarlögunum og gera þau ítarlegri. Hins vegar þurfi að ræða breytingar á lögum ef Hæstiréttur fær sambærileg mál og mál Brynjars til úrlausnar og dæmir eins.

„Ef að þetta er orðið fordæmi og Hæstiréttur breytir því ekki aftur má velta því fyrir sér hvort það sé ekki nauðsynlegt að löggjafinn breyti löggjöfinni,“ segir Brynhildur.

„Löggjöfin er alltaf háð túlkun og það eru dómararnir sem túlka hana í dómum sínum,“ segir Ragnheiður og bætir við:

„Þó svo að það komi dómur sem okkur finnst ekki réttur þá er ekki endilega víst að það eigi að rjúka til og breyta lögunum. Lögin geta út af fyrir sig verið ágæt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert