Fjölskyldur, ungir og aldraðir í rútunni sem valt

Frá slysstað í Öxnadal.
Frá slysstað í Öxnadal. mbl.is/Þorgeir

Ögmundur Skarphéðinsson, ræðismaður Tékklands á Íslandi, segir betur hafa farið en á horfðist eftir að rúta valt í Öxnadal á föstudag. Hann hrósar hjálparliðum í hástert og segir þá hafa komið myndarlega að björgunaraðgerðum.

Hann segir ferðamennina afar þakkláta þeim sem komu þeim til bjargar, en hópurinn hafi verið margslunginn: „Ungt fólk, eldra fólk og fjölskyldur, þannig að þetta var mjög dreifður hópur eins og ég skil það.“

Flytja þurfti fimm með þyrlu og sjúkraflugvélum á gjörgæsludeild Landspítalans. Halda þurfti tveimur sofandi í öndunarvél en þeir voru sagðir vera með stöðug lífsmörk. Aðrir fimm farþegar voru lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri, en alls voru 22 tékkneskir ferðamenn í rútunni.

Sendiherra Tékklands í Noregi var fyrir tilviljun staddur á landinu.

„Svo heppilega vildi til að bæði sendiherra Tékklands í Noregi og fulltrúi sendiráðsins voru staddir hér,“ segir Ögmundur, en sendiherra Tékklands í Noregi gegnir líka hlutverki sendiherra á Íslandi þótt bækistöðvarnar séu í Osló.

„Þetta hjálpaði mjög mikið til. Þau greiddu úr tungumálaerfiðleikum og hlutum sem sneru að persónulegum upplýsingum,“ segir hann og bætir við að Tékkar búsettir á Íslandi hafi boðið fram krafta sína.

Að sögn Ögmundar flugu níu frá landinu í gær og hann staðfesti að til hefði staðið að hópurinn færi frá landinu í gær. Flestir þeirra sem eftir eru séu ferðamenn sem þurftu að dvelja á spítala vegna slyssins og aðstandendur þeirra. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert