Bjartsýnir á jarðvarmanotkun á Ísafirði

Borholan í Tungudal.
Borholan í Tungudal. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður jarðhitaleitar í Tungudal á Ísafirði benda til þess að þar sé að finna heitt vatn í nægilegu magni til upphitunar húsa á Ísafirði.

Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða segir að aukinnar bjartsýni gæti hjá Orkubúinu varðandi nýtingu jarðhita til upphitunar húsa á Ísafirði þar sem prófanir bendi til þess að borhola nr. TD-9 sé mun afkastameiri en í talið hafi verið í fyrstu.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, segir í samtali við mbl.is að niðurstöðurnar hafi komið sér á óvart.

Talsvert eftir af framkvæmdum

„Í upphafi sýndist okkur sem vatnsstreymi úr holunni væri á milli 10-20 lítrar á sekúndu sem hefði aðeins dugað til þess að hita upp um þriðjung bæjarins. Hins vegar hafi streymið mælst á bilinu 45-50 lítrar á sekúndu og því séu talsverðar líkur á að vatnið dugi fyrir allan kaupstaðinn.”

Reiknað er með að vinnsluhitastig holunnar geti orðið um 56-57°C, en vatnsæðin liggur á 480 metra dýpi og er í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá Skutulsfjarðareyri.

Elías segir allt benda til þess að varmadæla verði nýtt til að skerpa á hitastiginu, það sé þó talsvert eftir að framkvæmdum til að það rætist.

Hefur mikla þýðingu fyrir alla Vestfirði

„Við höldum nú áfram að rannsaka svæðið og munum væntanlega bora aðra 500 metra djúpa holu til þess að ná betur yfir umfang svæðisins,“ segir Elías og bætir við:

„Ekki er ljóst hvenær vatnið kemur til með að nýtast til húshitunar, en af allt fer að óskum verður hægt að nýta það innst í firðinum innan sex mánaða. Lengra er þangað til að vatnið geti farið að nýtast í öðrum bæjarhlutum.“

Ísafjarðarbær er næst stærsta bæjarfélag landsins án jarðvarmaveitu, en jarðhitaleit hefur staðið yfir með löngum hléum í Skutulsfirði allt frá árinu 1963. Því er ljóst að fundurinn getur haft mikla þýðingu fyrir alla Vestfirði.  

„Við erum þó ekki komin svo langt að hugsa til nágrannabæja svo sem Hnífsdals og Bolungarvíkur, fyrsta skrefið er að ná öllum Ísafirði inn á jarðhita“ segir Elías að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert