Fæddur á Íslandi en fær ekki ríkisborgararétt

Íslensk vegabréf.
Íslensk vegabréf. mbl.is/Hjörtur

Róbert Scobie, maður á sjötugsaldri, fékk nýlega neitun frá Útlendingastofnun þegar hann sótti um íslenskt ríkisfang þrátt fyrir að vera fæddur og uppalinn á Íslandi. 

Móðir Róberts er íslensk en faðir hans er frá Bandaríkjunum. Róbert hefur búið á Íslandi í samtals 51 ár, en hann flutti til Bandaríkjanna þegar hann var rúmlega tvítugur og bjó þar og starfaði í nítján ár.

Hann hefur búið hérlendis með eiginkonu sinni síðan árið 1995 og unnið á Íslandi nær alla sína starfsævi.

Róbert Scobie er fæddur og uppalinn á Íslandi en fékk …
Róbert Scobie er fæddur og uppalinn á Íslandi en fékk nýlega synjun um íslenskt vegabréf. Ljósmynd/Aðsend

Óskuðu ítrekað eftir sömu gögnum

Þegar Róbert hóf umsókn hjá Útlendingastofnun til að fá íslenskt ríkisfang var honum tjáð að hann þyrfti að taka íslensku námskeið þrátt fyrir að hafa lokið grunnskólaprófi í íslensku á sínum tíma sem og hann talaði íslensku við starfsmann Útlendingastofnunar. 

Þá segir Róbert í samtali við mbl.is að hann hafi skilaði inn öllum gögnum sem Útlendingastofnun óskaði eftir, þar á meðal fjárhagslegum gögnum, upplýsingum um eignir þeirra hjóna á Íslandi, þar á meðal um fasteignir sem þau eiga, ásamt því að hafa skilað inn hreinu sakarvottorði og öllu því sem undirstrikar tilverurétt hans sem Íslending. 

Róbert segir að þrír starfsmenn Útlendingastofnunar hafi verið með málið á sínu borði og óskuðu þau ítrekað eftir gögnum sem Róbert hafði þegar sent inn. Hann bað því starfsmenn stofnunarinnar að leita sín á milli eftir gögnum sem hann hafði þegar sent inn.

Lífeyrir ekki metinn nóg til framfærslu

Róbert fékk lokasvar hjá Útlendingastofnun í maí þar sem honum var hafnað um íslenskt ríkisfang. Þá var honum tjáð að meðal ástæðna var að það vantaði upplýsingar um erlent sakavottorð frá bandarísku alríkislögreglunni (FBI) frá 15 ára aldri, en Róbert hefur nú gefið Útlendingastofnun umboð til að óska eftir þessum upplýsingum hjá FBI. 

Honum var einnig tjáð að hann sýndi ekki fram á nægar tekjur af sínum ellilífeyri, þrátt fyrir að hafa verið launþegi á Íslandi nær alla sína starfsævi.

Hann spyr sig hvort það sé ekki furðulegt að einstaklingur sem hefur unnið nær alla ævi á Íslandi er metinn svo að hann geti ekki framfleytt sér þegar komið er á ellilífeyrisaldur og hvort það sé ekki kerfislegt vandamál. 

Aðpurður hvað verði næst og hvort hann eigi von á að vera sendur úr landi segir hann að hann viti ekki hvað framhaldið verði en það væri sérstakt ef einstaklingur sem er fæddur og uppalinn á Íslandi væri sendur úr landi. 

Mátti bara vera á landinu í 90 daga

Þegar Róbert kom heim ú fríi í Bandaríkjunum í fyrra var lögreglumaður á flugvellinum sem spurði hvers vegna hann væri með bandarískt vegabréf frekar en það íslenska. Róbert tjáði honum að það væri í ferli. 

Lögreglumanninum fannst það einkennilegt að maður sem er fæddur og uppalinn á Íslandi sé ekki með íslenskt vegabréf. Hann tjáði honum að hann þyrfti þá að stimpla vegabréfið hans svo að hann ætti aðeins rétt á að vera á Íslandi lengur en í 90 daga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert