Fjöldi brota ekki hár miðað við leyfafjölda

Daníel O. Einarsson er formaður Frama - félags leigubílstjóra
Daníel O. Einarsson er formaður Frama - félags leigubílstjóra mbl.is/Unnur Karen, Aðsend

Daníel O. Einarsson, formaður Frama – félags leigubílstjóra, segir þann fjölda kæra sem tugir leigubílstjóra eiga yfir höfði sér eftir eftirlit lögreglunnar, ekki háan. Leyfi til leigubílaaksturs séu yfir 900 talsins og aðeins 105 hafi verið skoðaðir í eftirlitinu í þetta sinn.

Í eftirlitshrinu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með leigubifreiðum um helgina kom í ljós að fjöldi stóðst ekki kröfur um leyfi og eiga nú 48 leigubílstjórar yfir höfði sér kæru.

„Þetta eru mjög fáir, þeir segjast bara hafa skoðað 105,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.  

Já, þetta eru 48 af 105 samt?

„Já, en ég get sagt ykkur að í Noregi fyrir mánuði síðan þá skoðaði lögreglan í Osló 368 bíla og þá voru aðeins 38 bílar með hlutina í lagi. Af 368 bílum voru aðeins 38 bílar með hlutina í lagi en 275 höfðu fengið eina eða fleiri áminningar til lagfæringar, 50 bílar voru settir í bann og fimm bílar voru kyrrsettir,“ svarar Daníel.

Yfir 900 leyfi gefin út

Spurður hvort honum þyki þetta ekki hátt hlutfall miðað við stærð markaðarins hér á landi svarar hann því neitandi.

„Nei af því það er búið að gera þetta frjálst og það er kominn svo mikill fjöldi bíla. Menn þekkja ekki umhverfið og þekkja ekki reglurnar, þeir eru búnir að fara í gegnum námskeið og taka prófið en það hefur ekkert raunfærnimat farið fram og þeir hafa ekkert starfsnám að baki. Þeim kannski bara finnst allt í lagi að taka prófið og gleyma síðan því sem prófið snerist um. Fara svo að vinna og fara ekki að reglum. Þetta eru mjög fáir bílar, 105 bílar eru mjög fáir af því leyfin eru orðin svo mörg. Leyfin eru komin yfir 900, sem eru í umferð, plús leyfin sem eru hætt í umferð en geta verið að störfum þó þau hafi verið lögð inn. Það er þetta sem vantar, það er ekkert utanumhald,“ segir Daníel. 

„Eftirlitið er lykillinn að örygginu“

Þá vanti yfirlit yfir það hvar á landinu leyfin séu nýtt eftir að svæðatakmörkun var afnumin. Eftirlit skorti á landsbyggðinni en hann fagnar þó eftirliti lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.

„Við fögnum eftirliti og þökkum lögreglunni fyrir það að sinna þessu eftirliti, því það er nauðsynlegt. Það er það aðhald sem við höfum kallað eftir. Það hefur ekki verið í mörg ár og er ástæðan fyrir því að svört starfsemi hefur grafið þannig undan stéttinni, að það vantaði leigubíla og þá kvartaði fólk yfir því að það vantaði leigubíla, en það var ekki hlustað á okkur sem vorum búin að óska eftir eftirliti í mörg ár. Það þarf að vera til staðar eftirlit því um það snýst öryggi almennings í umhverfi leigubifreiða. Þess vegna höfum við oft og lengi til haft eftirlit með okkur sjálfum og það var bundið í lög um leigubíla að starfsemi leigubílastöðva skyldi vera skipulögð með samþykki og samráði við félag leigubifreiðastjóra, það er tekið úr lögunum og þar með er okkar eftirlit eiginlega dottið úr samhengi,“ segir Daníel.

Að lokum hvetur hann lögregluna til þess að halda eftirlitinu áfram og jafnframt hafa frekara eftirlit með ómerktum bifreiðum sem sinni fólksflutningum gegn gjaldi. Hann leggur til að leigubifreiðir undir eftirliti verði sett á litaðar númeraplötur til þess að tryggja öryggi fyrir farþega.

„Eftirlitið er lykillinn að örygginu,“ segir Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert