Foreldrar fá ekki sömu þjónustu eftir fæðingu

Heimaþjónusta er mikilvæg aðstoð fyrir foreldra og börn eftir fæðingu.
Heimaþjónusta er mikilvæg aðstoð fyrir foreldra og börn eftir fæðingu. Ljósmynd/Colourbox

Konur sem dvelja lengur en 72 klukkustundir á sjúkrastofnun eftir fæðingu barns eiga ekki rétt á heimavitjunum eftir heimkomu. Kveðið er á um þetta í rammasamningum á milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og ljósmæðra.

Alla jafna eiga konur og fjölskylda þeirra rétt á heimaþjónustu í tíu daga eftir fæðingu barns þar sem ljósmóðir fylgist með andlegri líðan foreldra, heilsu barns, veitir aðstoð með brjóstagjöf og svarar ýmsum spurningum sem nýbakaðir foreldrar kunna að hafa. 

Emma Marie Swift, ljósmóðir á fæðingarheimili Reykjavíkur og dósent við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að heimaþjónusta sé mikilvæg þjónusta fyrir nýbakaða foreldra og að allir þurfi á henni að halda, þá sérstaklega þeir sem hafa verið veikir eða með veikt barn. 

Hún segir að núverandi kerfi sé ósanngjarnt og að foreldrar sitji ekki við sama borð. Hefur hún kallað eftir breytingum á þessu „öfugsnúna kerfi“.

Emma Marie Swift, ljósmóðir á fæðingarheimili Reykjavíkur og dósent við …
Emma Marie Swift, ljósmóðir á fæðingarheimili Reykjavíkur og dósent við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Fer eftir flokkun 

Ákvörðun um hvort konur og fjölskylda þeirra eigi rétt á heimaþjónustu fer eftir flokkun sem ræðst af heilsu barns og móður. Flokkarnir eru þrír: A-, B- og C-flokkur.

Ef móðir og barn falla undir A-flokk eru þau bæði talin heilsuhraust og fara oftast heim innan 36 tíma frá fæðingu. Ef móðir og barn tilheyra B-flokk þarf að fylgjast betur með þeim og þurfa þau þá að dvelja aðeins lengur á sjúkrastofnuninni. 

Ef móðir og barn eru loks í C-flokki þarf konan ýmist að dvelja á sængurlegu vegna veikinda eða heilsukvilla eða barnið þarf að dvelja á vökudeild eftir fæðingu. 

Emma segir að þeir sem falli undir C-flokk séu þeir sem dvelji oft lengur en 72 klukkustundir á sjúkrahúsinu og missa þar með réttinn á heimavitjunum frá ljósmóður.

Hún segir það öfugsnúið að kona eða barn sem hefur verið veikt fyrstu dagana eftir fæðingu missi þessa þjónustu og hefur talað fyrir því að konur og fjölskyldur þeirra eigi rétt á heimavitjunum frá ljósmóður óháð dvalartíma á sjúkrastofnun.

„Ef kona dvelur í fjóra daga [á sjúkrastofnun], þá eru enn þá sex dagar eftir sem hún á að geta fengið heimaþjónustu,“ segir Emma í samtali við mbl.is.

Samþykkti breytingar fyrir ári

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í apríl í fyrra og spurði ráðherra hvort hann myndi beita sér fyrir breytingum á rammasamningi milli SÍ og ljósmæðra, til þess að tryggja að ljósmæður geti veitt heimaþjónustu til foreldra og barna fyrstu tíu daga frá fæðingu, óháð dvalartíma á sjúkrastofnun. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn Jóhann Páls og kvaðst munu leggja til breytingar á samningi SÍ og ljósmæðra um þjónustu ljósmæðra í heimaþjónustu. 

„Til áframhaldandi þróunar þjónustunnar mun ráðherra leggja til breytingu á gildandi samningi þannig að aðgengi sængurkvenna og fjölskyldna þeirra að þjónustunni verði óháð lengd sængurlegu á stofnun, enda hafi málefnalegar ástæður legið að baki seinkun útskriftar,“ sagði í svari Willums Þórs við fyrirspurn Jóhann Páls.

Rúmt ár er nú liðið, frá því Willum sagðist myndu ráðast í breytingar á rammasamningnum, en ekkert hefur gerst síðan.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Veita þjónustuna gegn greiðslu

Emma segir að sumar ljósmæður hafi ákveðið að veita þessa þjónustu til kvenna sem eiga ekki rétt á henni, gegn greiðslu.

Ljósmæður auglýsa þessa þjónustu ekki sérstaklega heldur ákveða þær sjálfar að grípa til þessara ráða vegna þess hve ósanngjarnt þeim finnst kerfið.

„En það kerfi er ekkert frábært, heilbrigðisþjónusta á að vera jöfn og ókeypis fyrir þá sem eru sjúkratryggðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert