Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á borgarstjórnarfundi fyrr í kvöld að auka fjárheimildir til skrifstofu borgarstjóra. Um er að ræða 25 milljónir króna sem ætlað er að mæta breytingum í starfsmannamálum á skrifstofunni.
Frá þessu greinir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, á facebook–síðu.
Í færslunni rifjar Hildur upp óánægju sem upp kom meðal íbúa Reykjavíkurborgar um síðustu jól þegar ákveðið var að skerða opnunartíma sundlauganna í sparnaðarskyni.
„Það er áhugavert til þess að líta, að í ár nemur hagræðingin af þeirri aðgerð rúmum 26 milljónum króna,“ segir í færslu Hildar þar sem ákvörðunin er gagnrýnd.
Þá bætir hún við að það sé ávallt til nóg fjármagn þegar kemur að því að stækka yfirbyggingu borgarinnar, en þegar kemur að niðurskurði þá sé almennt fyrst ráðist að þjónustu við íbúa.
„Ég er með hugmynd, hættum við hækkun starfsmannakostnaðar á skrifstofu borgarstjóra og tryggjum aftur óskerta þjónutu sundlauganna!“
Færsluna má skoða í heild sinni hér að neðan.