Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra stóð í þeirri meiningu að búið væri að breyta reglugerð sem snýr að rammasamningi um heimaþjónustu, eða heimavitjun ljósmæðra, þannig að réttur til heimaþjónustu félli ekki niður ef foreldrar og barn þurfa að vera lengur en 72 klukkustundir á fæðingardeild.
Þetta kom fram í svari Willums við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Í upphafi fyrirspurnar sinnar rifjaði Jóhann Páll upp samskipti sem hann átti við Willum í tengslum við málið fyrir ári síðan.
„Ég benti á að samkvæmt rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og ljósmæðra fellur rétturinn til heimaþjónustu niður ef foreldrar og barn þurfa að vera lengur en 72 klukkustundir á fæðingardeild, sem er algerlega galið vegna þess að oft eru það einmitt þessar fjölskyldur sem þurfa mest á ráðgjöf og stuðningi og eftirfylgni að halda eftir að heim er komið.“
Jóhann segir að í kjölfar þeirra orðaskipta sem hann átti við Willum fyrir ári síðan hafi ráðherrann lofað að gera breytingar. Enn bóli þó ekkert á þessum breytingum og kveðst Jóhann enn heyra sögur af foreldrum sem eru sendir heim með barn sitt eftir erfiða daga á vökudeild og sængurlegudeild en fái enga heimaþjónustu.
„Ég verð bara að játa það hér að ég stóð í þeirri meiningu að í kjölfarið á þessum samtölum okkar og þeirri skoðun sem ég lét fara í í kjölfarið þá yrði þessu breytt. Ég þarf bara að fara yfir það mál, af hverju það hefur ekki gengið eftir,“ sagði Willum í svari sínu við fyrirspurn Jóhanns.
„Það skal játast hér og nú og er sjálfsagt mál af því að eins og hv. þingmaður veit af fyrri samtölum okkar um þetta mál þá erum við hjartanlega sammála í þessu máli,“ hélt Willum áfram og sagði því næst að það kallaði á sína ábyrgð að kanna hvers vegna þetta hefði ekki gengið eftir með breytingu á reglugerðinni.