Jarðhitaboranir á Reykjanesi fram úr væntingum

Vonir standa til að hægt verði að hita byggð á …
Vonir standa til að hægt verði að hita byggð á Reykjanesi ef svipað ástand skapast og síðastliðinn vetur. myndin er samsett. mbl.is/Hákon, Eggert Jóhannesson

Árangur jarðhitaborana á Rosmhvalanesi, Njarðvíkurheiði og Vogshóli er langt umfram væntingar, að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samtali við mbl.is. 

„Tvær borholur hafa þegar verið boraðar á svæðinu og stefnt er að því að bora þá þriðju, en afköst þessa svæðis eru ekki jafn mikil og afköst Svartsengis,“ segir Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, heilsar Guðmundi Ármanni Böðvarssyni, …
Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, heilsar Guðmundi Ármanni Böðvarssyni, framkvæmdastjóra Ræktunarsambands Flóa og Skeiða. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri holurnar eru 1311 og 1665 metra djúpar og helstu vatnsæðar á 400-600 metra dýpi. 

„Við erum þó vongóð, með fyrirvara um að þriðja borholan skili sama árangri, að hægt verði að halda hita á Reykjanesbæ, Vogum og Suðurnesjabæ til skemmri tíma, skapist svipað ástand og síðastliðinn vetur, þegar hraun rann yfir hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar og heitavatnslaust varð á öllum Suðurnesjum.“

Svæðið þar sem borholurnar eru staðsettar.
Svæðið þar sem borholurnar eru staðsettar. Ljósmynd/Aðsend

Gagnist fyrir atvinnuuppbyggingu sem og neyðarástand

Að jarðborununum standa HS Orka, Ísor og Almannavarnir. Framkvæmd borunarinnar er samstarf fyrirtækjanna Jarðborana og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku segir í samtali við mbl.is, afar ánægjulegt jarðhitaboranirnar hafi skilað þessum niðurstöðum. Þannig séu miklir möguleikar á varahitasvæði fyrir Reykjanesið.

Fundurinn sé þar að auki mikilvægur, óháð því hvort vatnið nýtist í neyðartilfellum, þar sem heitavatnsþörfin á svæðinu sé alltaf að aukast og bæta þurfi heitavatnsframleiðslu til þess að halda í við íbúa og atvinnuþróun.

Önnur borholanna þar sem nægilegt vatn fannst.
Önnur borholanna þar sem nægilegt vatn fannst. Ljósmynd/Aðsend

Sókn í grænni orku

Lítil uppbygging hefur verið í jarðhitavirkjunum á þessari öld en því segist Guðlaugur vera sérstaklega ánægður með þessa útkomu.  

„Þessar aðgerðir hafa skilað gríðarlegum árangri og því er ánægjulegt að sjá árangurinn, bæði hér en einnig á Ísafirði og Selfossi, en þetta er aðeins lítill hluti af sókn í grænorku málum sem mun gagnast öllum landsmönnum.“ segir Guðlaugur. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert