Sneru manninn niður og settu á hann hrákagrímu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær mann sem grunaður var um ölvun á almannafæri og settu á hann hrákagrímu við handtökuna. Tugir manna hópuðust í kringum svæðið á meðan aðgerðin stóð yfir.

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir við mbl.is að þrír lögreglumenn sem voru á göngueftirliti í bænum í gær, þjóðhátíðardaginn 17. júní, hefðu gengið fram á manninn.

Laganna verðir grunuðu manninn um ölvun á almannafæri og var hann ekki talinn fær um að vera meðal fólks. Maðurinn, sem hafði sýnt einhverja mótspyrnu, var þá snúinn niður í jörðina og tekinn höndum.

„Getur algjörlega andað“

Þá kölluðu lögregluþjónar eftir bifreið svo hægt væri að flytja manninn á lögreglustöðina. Með bifreiðinni fylgdu tveir lögregluþjónar til viðbótar sem aðstoðuðu einnig við handtökuna.

Hrákagríma var sett um höfuð mannsins en Ásmundur segir að það hafi verið til að gæta öryggis lögregluþjóna, svo hinn handtekni gæti ekki hrækt á þá.

„Fólk getur algjörlega andað. Þetta er bara net,“ segir Ásmundur um grímuna. Síðan var maðurinn borinn inn í lögreglubifreiðina.

Á myndbandi sem mbl.is tók af handtökunni í gær má sjá að stór hópur vegfarenda hafi safnast saman til að fylgjast með lögregluaðgerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert