Æðstu embættismenn eigi að sýna gott fordæmi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á hinum …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á hinum ýmsu lögum vegna hækkunar launa æðstu embættismanna þjóðarinnar á Alþingi í dag. mbl.is/Eyþór

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir það forgangsmál ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og skapa Seðlabankanum skilyrði til að lækka vexti. 

Þetta kemur fram í facebook–færslu frá Bjarna þar sem hann útskýrir jafnframt að til þess að það gangi eftir verði forsendur núgerðra kjarasamninga að standast. Auk þess sem forðast þurfi launaskrið sem endar í höfrungahlaupi á vinnumarkaði með þekktum afleiðingum. 

Skynsamlegt að miða við 66.000 króna hámark

„Þjóðkjörnir fulltrúar og æðstu embættismenn eiga að ganga á undan með góðu fordæmi,“ segir í færslu Bjarna sem fyrr í dag mælti fyrir frumvarpi um breytingu á hinum ýmsu lögum vegna hækkunar launa æðstu embættismanna þjóðarinnar. 

„Í dag mælti ég fyrir frumvarpi um að laun þessa hóps hækki um 66.000 krónur, eða 3,5% að meðaltali yfir hópinn. Að óbreyttu hefðu launin hins vegar hækkað um 8%, eða sem nemur hækkun launavísitölu ríkisstarfsmanna á síðasta ári.“

Þá útskýrir Bjarni að lögin byggi á launum síðasta almanaksárs og því sé skynsamlegt að miða við 66.000 króna hámark almennra hækkana í stefnumarkandi kjarasamningum 2022 og 2023.

Heildarhagsmunir einfaldlega of miklir 

„Laun langflestra hópa hækkuðu mikið á síðasta ári. Þetta á sérstaklega við um lægri tekjuhópa, sem skýrir að miklu leyti hækkun launavísitölunnar. Þær hækkanir geta í mínum huga ekki orðið ástæða þess að ríkið hækki laun æðstu embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa með svo ríflegum hætti,“ segir Bjarni og undirstrikar að heildarhagsmunirnir séu einfaldlega of miklir. 

Hann segir aðstæður nú sérstakar en áréttir að Íslendingar ættu ekki að þurfa að venjast því að löggjafinn grípi inn í launaþróun með þessum hætti. Von sé á tillögum frá hópi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á gildandi fyrirkomulagi.

„Markmiðið er að launaþróun þessa hóps fylgi í auknum mæli öðrum launum með eðlilegum hætti. Það sem mestu máli skiptir nú er að ná stjórn á verðbólgunni og stuðla að því að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa, líkt og hann hefur gert af miklum krafti undanfarin ár. Eitt er víst, að sama hvernig kerfi við hönnum þá mun það alltaf virka betur ef hér ríkir verðstöðugleiki.“

Færslu Bjarna má skoða í heild sinni hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert