Atvinnutækifærum fjölgað en búsetuskilyrði versnað

Könnunin var framkvæmd um land allt.
Könnunin var framkvæmd um land allt. mbl.is/Sigurður Bogi

Innflytjendur eru almennt óánægðari með að búa þar sem þeir búa hérlendis en Íslendingar. Einnig eru þeir líklegri til að flytja brott og eru töluvert óhamingjusamari og óánægðari með þjónustu síns sveitarfélags.

Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá Samstarfsvettvangi landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar sem gaf í dag út skýrslu um íbúakönnun landshlutanna 2023.

Í skýrslunni er dregin fram afstaða innflytjenda í nýlokinni íbúakönnun og hún borin saman við afstöðu Íslendinga. Einnig var hún borin saman við afstöðu innflytjenda árið 2020 þegar síðasta könnun var framkvæmd.

Fleiri þættir tengdir búsetuskilyrðum versnað

Í skýrslunni kemur fram að innflytjendur meti það svo að atvinnutækifærum þeirra hafi fjölgað frá síðustu könnun en fleiri þættir þó versnað sem tengdust búsetuskilyrðum þeirra. Ber þá helst að nefna framboð á íbúðarhúsnæði, gæði heilsugæslu og tækifæri til afþreyingar.

Kemur einnig fram að innflytjendur séu óánægðari með skólakerfið hér á landi, en í fréttatilkynningu segir að það gæti tengst tungumálinu hér á landi. Það hafi þó ekki verið sannreynt.

Rúmlega 10.000 manns tóku þátt í könnuninni og voru þar af 600 innflytjendur. Könnunin hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Segir í skýrslunni að einn helsti galli könnunarinnar hafi verið að innflytjendur hefðu þurft að vera fleiri.

Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á landinu öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert