Barði með steypuklump og bar fyrir sig neyðarvörn

Héraðsdómur Vesturlands féllst ekki á neyðarvörn í málinu.
Héraðsdómur Vesturlands féllst ekki á neyðarvörn í málinu. mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt mann til þriggja mánaða fangelsisvistar og til greiðslu 1.179.254 króna í sakarkostnað fyrir hættulega líkamsárás. Í dómnum segir þó að fresta beri fullnustu refsingarinnar og að hún skuli falla niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn skilorði. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa tekið upp steypuklump og slegið brotaþola ítrekað í höfuðið með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut brot á tönnum, þrjá skurði á höfði, skrámur á nefi, skurð á tungu og annan á ofanverðri vör, auk þess sem hann kenndi sér meins í baki. 

Málið var upphaflega höfðað gegn bæði ákærða og brotaþola en þar sem báðir mannanna neituðu sök var ákveðið að kljúfa málið og dæma það í tvennu lagi. 

Ekki ljóst hver átti upptökin að átökunum 

Fyrir dómi kemur fram að mennirnir hafi átt samskipti á samfélagsmiðlinum Facebook í aðdraganda átakanna þar sem maðurinn hafi lýst yfir áhyggjum sínum vegna atvika er vörðuðu stúlku. Brotaþoli í máli þessu hafi þá hótað ofbeldi, ætlað að koma og lemja manninn. Maðurinn hafi brugðist við og sagt að brotaþoli gæti komið og fundið sig. 

Því næst hittast þeir og til átaka kemur. Ekki er upplýst að fullu hvort ákærði eða brotaþoli hafi átt upptökin að átökunum en það þykir þó sannað að maðurinn hafi slegið brotaþola oftar en einu sinni í höfuðið með steypuklumpi eða grjóti sem hann var með. 

„Voru högg þau sem ákærði veitti brotaþola hættuleg, ítrekuð og í höfð en þau gátu haft alvarlegri afleiðingar í för með sér en raun varð á,“ segir í dómnum. 

Bar fyrir sig neyðarvörn  

Eins og fram kemur hér á undan voru mennirnir báðir ákærðir en þar sem þeir neituðu báðir sök var ákveðið að kljúfa málið og dæma það í tvennu lagi. Áður en dæmt var í þessu máli lá því fyrir dómur gegn brotaþola sem hafði verið sakfelldur fyrir líkamsárás vegna sömu átaka. 

Maðurinn notaði sér þá forsendu í málinu sem nú er fjallað um og bar fyrir sig að um neyðarvörn hafi verið að ræða og fór fram á að vera sýknaður á þeirri forsendu, enda lægi fyrir að brotaþoli hefði verið sakfelldur fyrir líkamsárás. 

„Ákærði hafi verið að afstýra ólögmætri árás og aðferð hans ekki sýnilega hættulegri en tilefni hafi verið til og forsvaranleg. Brotaþoli hafi rokið af stað eftir skilaboð sem hann sendi ákærða og komið á vettvang greinilega í þeim tilgangi að ráðast á ákærða,“ segir í dómnum. 

Brotið metið alvarlegra en ógn brotaþola

Í dómnum segir að til greina hafi komið að sýkna manninn á þeirri forsendu að hann hafi gripið til neyðarvarnar. Það þótti þó sannað að maðurinn hefði verið með klumpinn í höndunum eða tilbúinn að ná í hann þegar brotaþola bar að, en það var ekki séð að slík ógn hafi stafað af nærveru eða atlögu brotaþola að maðurinn hefði haft ástæðu til að beita svo hættulegri aðferð í átökum þeirra. 

„Hefur ákærði ekki sýnt fram á að hann hafi staðið frammi fyrir að óttast um stórfellda árás eða að átök myndu síðar komast á það stig að réttlætt gæti verknaðinn. Voru viðbrögð ákærða augljóslega hættulegri en efni voru til.“

Héraðsdómur féllst ekki á neyðarvörn 

Dómurinn féllst þannig ekki á að um neyðarvörn hafi verið að ræða heldur komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði unnið sér til refsingar. Við ákvörðun refsingarinnar var horft til þess að brotið var hættulegt og leiddi til áverka á höfði þannig að verr hefði geta farið. 

Á sama tíma var litið til þess að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsiverð brot auk þess sem hann hafði frá upphafi játað að nota stein, þrátt fyrir að hann hafi sagst hafa gert það til að verjast árás. Í meginatriðum hafi hann þannig gengist við gjörðum sínum. 

Taldist refsingin því, hæfilega ákveðin, fangelsi í þrjá mánuði en rétt að fresta fullnustu hennar haldi ákærði almennt skilorði í tvö ár frá því að dómur féll í málinu. Þá var honum auk þess gert að greiða 400 krónur í miskabætur, en sakarkostnaður í málinu nam samtals 1.179.254 krónum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert