„Getum ekki beðið lengur“

Guðmundur Ingi segir frá tilboði Afstöðu til heilbrigðisráðherra í kjölfar …
Guðmundur Ingi segir frá tilboði Afstöðu til heilbrigðisráðherra í kjölfar þess er fangi fannst látinn í klefa sínum á Litla-Hrauni í maí. mbl.is/Árni Sæberg

„Í ljósi atburða í fangelsunum undanfarin misseri hefur verið vöntun á geðheilbrigðisþjónustu og bakvaktaneyðarþjónustu sem við tengjum við þessa atburði sem eru jafnvel dauðsföll,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, í samtali við mbl.is um úrræði sem félagið býður yfirvöldum.

Segir hann íslensk fangelsi hýsa tugi frelsissviptra einstaklinga sem glími við líkamleg og andleg veikindi. „Við höfum því ákveðið að bjóða heilbrigðisráðherra not af okkar vettvangsteymi til að sinna bakvaktaþjónustu tímabundið,“ segir Guðmundur Ingi.

Teymið segir hann samanstanda af tveimur geðhjúkrunarfræðingum, tveimur almennum hjúkrunarfræðingum, þremur félagsráðgjöfum, sálgæsluaðila, áfengis- og vímuefnaráðgjafa og sérhæfðum jafningjaráðgjöfum.

„Þar af leiðandi ætlum við að bjóða fram okkar sérfræðinga …
„Þar af leiðandi ætlum við að bjóða fram okkar sérfræðinga þar sem þekking þeirra er mikil auk þess sem traustið er til staðar milli teymisins og fanga,“ segir Guðmundur Ingi. Ljósmynd/Aðsend

Teymið hæft til að sinna þjónustunni

Aðspurður kveður Guðmundur Ingi framangreinda fagaðila vera sjálfboðaliða Afstöðu og fyrirsjáanlegt sé að enn bætist í hópinn þar sem viðræður standi yfir við fleiri fagstéttir sem nýst gætu bágstöddum föngum. „Við erum til dæmis í viðræðum við þroskaþjálfa og erum með teymi sem er mjög hæft til að sinna þessari þjónustu. Við teljum að það sé ákveðin öryggisógn í fangelsunum,“ segir formaðurinn.

Þessa ógn rekur hann til þess að bakvaktaþjónustuna vanti og þar sé úrbóta þörf, dauðsföll hafi orðið og fleiri tilraunir til sjálfsvíga eftir það dauðsfall sem síðast varð í íslensku fangelsi.

„Við getum ekki beðið lengur með þetta,“ segir Guðmundur Ingi og svarar því til aðspurður að sumir sjálfboðaliða Afstöðu vinni mun meiri sjálfboðavinnu en venja sé við slíkt starf og allir í teyminu vinni launuð störf ofan á sjálfboðastarfið til að hafa í sig og á.

Traustið sé til staðar

„Raunar má hrósa heilbrigðisráðherra fyrir það að þar er strax hafin vinna í geðheilbrigðismálum og starfshópar eru við störf en það breytir því ekki að þetta úrræði þarf að koma strax,“ segir Guðmundur Ingi um það sem hér er til umræðu. „Þar af leiðandi ætlum við að bjóða fram okkar sérfræðinga þar sem þekking þeirra er mikil auk þess sem traustið er til staðar milli teymisins og fanga,“ segir hann enn fremur.

Hann segir tilboðinu beint til heilbrigðisráðherra þar sem hann beri ábyrgð á málaflokknum. „Hann þarf að taka ákvörðun og í kjölfar hennar þarf að setja skýr tímamörk um það hvenær ráðuneytið verði búið að útvega fjármagn í verkefnið auk þess sem gera þarf skýra verkferla um þetta samstarf ef af því verður,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert