Höfðu afskipti af fimm leigubílstjórum

Leigubíll.
Leigubíll. mbl.is/Unnur Karen

Lögreglan hafði afskipti af fimm leigubílstjórum í Reykjavík og voru þeir boðaðir í frekari skýrslutöku.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Fjöldi leigu­bíl­stjóra var tek­inn fyrir um nýliðna helgi vegna skorts á til­skyld­um leyf­um og ýmsu öðru í eft­ir­litsrass­íu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Lögreglunni barst tilkynning um þjófnað úr verslun í hverfi 220 í Hafnarfirði og er ekki vitað hver var að verki. Einnig barst tilkynning um innbrot og þjófnað úr geymslu í sama hverfi. Ekki er heldur vitað hver var þar að verki.

Þrjú umferðaróhöpp

Lögreglunni barst tilkynning um þrjú umferðaróhöpp á vaktinni. Tvö þeirra urðu í Kópavogi, annars vegar í miðbænum og hins vegar í hverfi 201. Minniháttar meiðsli urðu á fólki í fyrrnefnda óhappinu en engin í því síðarnefnda.

Þriðja óhappið varð í hverfi 113 í Reykjavík. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Hann var fluttur á slysadeild til frekari skoðunar og blóðsýnatöku.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnað úr bifreið í Vesturbænum. Gerandinn er ókunnur. Einnig barst tilkynning um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglan kom á vettvang var ekkert að sjá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert