Naut særði Íslending í nautahlaupi á Spáni

Skjáskot úr myndbandi af slysinu.
Skjáskot úr myndbandi af slysinu.

Íslenskur ferðamaður á fimmtugsaldri slasaðist í gær í nautaati í bænum Xàbia í Alicante-héraðinu á Spáni, að því er fram kemur í spænskum fjölmiðlum. 

Um var að ræða svokallaðan bous al carrer-viðburð sem gæti á íslensku útlagst sem nautahlaup. Þá er nautgripum sleppt á afmörkuð svæði á götum borga og bæja og þátttakendur gera sér að leik að því að hlaupa fyrir þau.

Slysið varð í upphafi viðburðarins en á vef spænska miðilsins Levante, sem greinir frá, má sömuleiðis sjá myndband af atburðinum.

Stunginn í innra lærið

Í því sést hvernig naut ræðst á Íslendinginn sem stendur við hlið eins konar píramída og stingur hann í innra lærið.

Samkvæmt umfjöllun Levante voru viðbragðsaðilar, lögregla og sjálfboðaliðar fljótir að koma Íslendingnum til aðstoðar og færðu hann undir læknishendur en litlu munaði að horn nautsins færi í gegnum slagæð.

Ástand mannsins er stöðugt og hefur hann verið fluttur á Dénia-spítalann í Alicante.

Samkvæmt Utanríkisráðuneytinu er borgaraþjónustan meðvituð um málið en kemur ekki til með að veita frekari upplýsingar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert