„Það er ekkert verið að hanga í stoppum“

Kristján og Nína í Rynkeby hjólaferðinni í fyrra.
Kristján og Nína í Rynkeby hjólaferðinni í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Team Rynkeby er alþjóðlegt góðgerðarverkefni þar sem verið er að safna peningum fyrir langveik börn. Verkefnið hófst í Danmörku og hefur breiðst út, aðallega til Norðurlandanna og við höfum tekið þátt síðan 2017,“ segir Jón Kjartan Kristinsson landsstjóri verkefnisins á Íslandi.

Yfirleitt er farið í júlí á hverju ári en vegna Ólympíuleikanna í París er farið aðeins fyrr í ár, eða 29. júní og endað í París 6. júlí.

Allar leiðir liggja til Parísar

„Verkefnið hefur vaxið ár frá ári og er líka komið til Belgíu og Þýskalands og svo er eitt alþjóðlegt lið. Þar eru keppendur frá löndum sem hafa ekki náð nægilegum fjölda til að mynda lið og þeir munu hjóla frá Barcelona til Parísar.

Almenna reglan er að liðin hjóla frá heimalandi sínu til Parísar. Við fljúgum til Kaupmannahafnar og hjólum frá Kolding í Jótlandi. Það fara semsagt öll liðin sína leið en við endum öll í ákveðnum garði í París á ákveðnum degi og þá hittast öll liðin.“

Jón Kjartan Kristinsson landsstjóri Rynkeby á Íslandi.
Jón Kjartan Kristinsson landsstjóri Rynkeby á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Stærsta einstaklingsdrifna söfnunarátakið

Jón Kjartan segir að í ár taki um 2500 hjólarar þátt í verkefninu og 500 aðstoðarmenn og hjólaferðin til Parísar sé hápunktur ársins. 

„Verkefnið gengur út á að safna styrkjum fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra og hvert land safnar fyrir einhvern ákveðinn sjóð í sínu landi. Við á Íslandi söfnum fyrir Umhyggju, félagi langveikra barna. Ég hugsa að þetta sé stærsta einstaklingsdrifna söfnunarátakið á Íslandi, því við höfum verið að safna yfir 30 milljónum á ári. Við söfnuðum í fyrra nákvæmlega 36 milljónum.“

Hér er hjólahópurinn í fyrra kominn til Brussel.
Hér er hjólahópurinn í fyrra kominn til Brussel. Ljósmynd/Aðsend

 Safnað allt árið

Jón Kjartan segir að á hverju ári séu fjórar stórar fjáraflanir.

„Við erum að selja styrki sem fyrirtæki eru að kaupa. Það getur verið gull- eða platínustyrkur og þá fá fyrirtækin lógóið sitt á treyjur liðsmanna. Svo erum við með svokallaðan silfurstyrk og bronsstyrk. Svo seljum við konfekt fyrir jólin og þá eru það meira einstaklingar sem kaupa það. Svo erum við að selja páskaegg fyrir páskana og fyrst voru aðallega einstaklingar að styrkja okkur þar, en nú er þetta orðin svo mikil hefð að það eru fjölmörg fyrirtæki farin að kaupa páskaegg og gefa starfsfólki. Svo höfum við líka verið með fjáröflunarmat með málverkauppboði og skemmtiatriðum.“

Hjólaferðin til Parísar er lokahnykkurinn á tímabilinu sem hefur farið í æfingar og fjáröflun fyrir verkefnið. „Eftir ferðina er farið að auglýsa eftir nýjum þátttakendum sem eru að selja styrki samhliða því að æfa fyrir ferðina næsta sumar, því það er ekkert sjálfgefið að fólk geti hjólað 1300 kílómetra.“

Elsa og Elín í hjólaferðinni í fyrra.
Elsa og Elín í hjólaferðinni í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Stífar æfingar fram að Parísarferð

„Það eru heilmiklar æfingar sem fylgja þessu og það þurfa allir að leggja sig fram við þær því við þurfum að halda að jafnaði um 25 km meðalhraða í ferðinni. Lengstu dagleiðirnar eru 200 kílómetrar þannig að fólk þarf að vera komið í gott hjólaform á þessum tíma. En þetta er samt þannig að við höfum tekið á móti fólki sem hefur ekki hjólað áður. Við byrjum að keyra útiæfingar á haustin, förum þá í inniæfingar og svo aftur á vorin förum við aftur út. Þá eiga allir að vera komnir í nógu gott hjólaform og þá erum við að einblína á að fólk geti hjólað saman í hóp.“

Hópurinn sem ein samofin heild

Jón segir að það sé sérstök kúnst að hjóla saman í hóp.

„Við hjólum þétt saman og erum með sterkustu hjólarana fremst sem brjóta vindinn fyrir þá sem á eftir koma. Þeir sem eru fremst sjá götuna fyrir framan sig, holur og steina sem getur verið hindrun og það þarf að gefa merki sem verður að geta borist til öftustu hjólaranna svo við erum að kenna þetta núna. Við verðum að vera mjög öguð í okkar hjólreiðum til þess að forðast slys. Við röðum fólki upp í ákveðna röð inn í hópinn og þú ferð ekkert úr þínu plássi og þú þarft að fá allar upplýsingar um hvað er í vændum, hvort sem það er hola, eða hringtorg og svo framvegis og við notum bæði tákn, handahreyfingar og köll til þess.“

Fremri hópurinn í hjólaferðinni í fyrra.
Fremri hópurinn í hjólaferðinni í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

30 hjólreiðamenn fara til Parísar ásamt 8 aðstoðarmönnum og ferðin er 10 dagar en hjólað er í 7 daga. 

„Mikilvægasti hópurinn er þjónustuhópurinn því að það myndi enginn fara í svona ferð hjólandi nema með því að fá svona þjónustu. Því það hjóla allir. Þegar við stoppum í kaffi þá er búið að draga fram einhverja næringu og vökva og sama með hádegismatinn að þá er búið að draga fram hádegismat.“

Það er ekkert verið að slaka á í stoppunum segir Jón Kjartan. „Við erum ekkert að hanga í stoppunum. Það eru tvö 15 mínútna kaffistopp og hálftíma stopp í hádeginu. Svo eru fjögur örstutt stopp til þess að stíga af hjólinu og teygja aðeins úr sér og við leggjum áherslu á að halda tempóinu vel yfir daginn og höldum skipulaginu vel.“

Hluti Rynkeby hópsins 2024 sem fer og hjólar í næsta …
Hluti Rynkeby hópsins 2024 sem fer og hjólar í næsta mánuði til Parísar. Ljósmynd/Aðsend

„Bara skemmtilegt fólk“

Jón Kjartan hefur farið í þrjár ferðir til þessa, en fer ekki í ferðina að þessu sinni. „Stór hluti af ánægjunni við að taka þátt í Rynkeby-liðinu er að þú eignast vini til lífstíðar því þú kynnist hópnum svo vel yfir árið og svo í hjólaferðinni. Það eru engir fýlupúkar sem nenna þessu og það er bara skemmtilegt fólk sem sækir í þetta. Það hefur alltaf verið alveg gífurlega góður andi í hópnum og mikið fjör,“ segir hann og bætir við að þetta sé alls ekki hjólakeppni heldur hjólasamvera. 

„Svo fer allt sem safnast til málefnisins, því liðsmenn borga sjálfir sínar ferðir og uppihald í hjólaferðinni,“ segir hann og segir að kostnaður sé líklega upp á 400-500 þúsund á hvern þátttakanda með hjóli, en Rynkeby fær sérstök gul Endurance Racer götuhjólá sérstöku verði, en yfirleitt kosta hjólin hálfa milljón ein og sér.

Þegar öll Rynkeby liðin eru samankomin til Parísar eru birtar bráðabirgða söfnunartölur og verkefninu þá lokið sem slíku, þótt verkefninu sé formlega lokið í ágúst eða september þegar Umhyggju er afhent söfnunarféð. Þá er yfirleitt búið að stofna nýjan hóp fyrir næsta ár.  

„Þetta er alveg rosalega skemmtilegt og ég mæli svo sannarlega með þessu ævintýri.“

Rynkeby hópur Íslands árið 2024.
Rynkeby hópur Íslands árið 2024. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert