Veitir þing­mönnum að­gengi að trúnaðar­upp­lýsingum

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur ákveðið að veita þingmönnum aðgengi …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur ákveðið að veita þingmönnum aðgengi að trúnaðargögnum í tengslum við frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Alþingis hefur ákveðið að veita þingmönnum aðgang að trúnaðarupplýsingum sem liggja fyrir í máli allsherjar- og menntamálanefndar í tengslum við frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar. 

Í tölvupósti sem þingmönnum barst frá skrifstofu Alþingis fyrr í dag, sem mbl.is hefur í höndunum, segir að ef sérstakar aðstæður mæli með því, og sé eftir því leitað, geti forseti Alþingis veitt aðgang að gögnum sem þessum. Vísir greindi fyrst frá.

Sérstakar ástæður mæla með skoðun gagnanna 

Í upphafi bréfsins segir að allsherjar- og menntamálanefnd hafi tekið ákvörðun um að flytja frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar. 

Því næst er það rakið að ef ljóst sé að málið muni koma til atkvæðagreiðslu á þingfundi þá geti forseti ákveðið, „ef sérstakar ástæður mæla með því og eftir því er leitað, að aðgangur verði veittur þegar fyrir liggja trúnaðarupplýsingar í máli sem nefnd hefur haft til athugunar“.

Óskað hafi verið eftir aðgangi að gögnum málsins og því hafi forseti, í samræmi við starfsreglur fastanefnda, tekið ákvörðun um að veita þeim þingmönnum sem þess óska kost á að kynna sér gögnin.

Strangar reglur gilda um skoðunina 

Loks er þingmönnum tilkynnt að þeir geti skoðað gögnin hjá nefnda- og greiningarsviði á 2. hæð í Smiðju að viðstöddum starfsmanni þangað til afgreiðsla málsins fer fram í þingsal. 

Um þessa skoðun gilda þó strangar reglur og er þingmönnum meðal annars óheimilt að taka myndir af gögnunum eða afrita þau með öðrum hætti, svo sem með því að skrifa niður upplýsingar úr þeim. 

Þá segir að haldin verði skrá um þá sem skoði gögnin og tímasetningu skoðunar. Eru þeir þingmenn sem hafa áhuga á að skoða gögnin jafnframt beðnir um að boða komu sína og taka frá tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert