„Við tökum þetta mjög alvarlega“

Gunnar Axel Davíðsson, rannsóknarlögreglumaður segir lögreglu taka ábendingum um að …
Gunnar Axel Davíðsson, rannsóknarlögreglumaður segir lögreglu taka ábendingum um að Quang Le hafi rætt við meinta þolendur alvarlega. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Ljósmynd Aðsend.

Gunnar Axel Davíðsson, sem fer með rannsókn á meintum brotum Quang Le, segir lögreglu taka það mjög alvarlega að hann hafi heimsótt meinta þolendur í málinu. 

„Það segir sig svolítið sjálft að þetta er ógnun að fara að hitta fólk sem eru brotaþolar í máli sem hann er sakborningur í,“ segir Gunnar Axel. 

Að sögn hans fara næstu dagar í það að átta sig á því hvers eðlis þessar heimsóknir Quang Le hafa verið. Í því skyni verður rætt við meinta þolendur. 

Tugir verið yfirheyrðir 

Að sögn Gunnars telur lögreglan sig þegar hafa tryggt sér megnið af þeim gögnum sem þarf til þess að rannsaka málið. 

Tugir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við það en að sögn Gunnars hafa engar yfirheyrslur farið fram síðustu fjórar til fimm vikur.

Hann segir ennfremur engar vettvangsferðir á döfinni, og eins og sakir standa séu engin áform um frekari húsleitir. 

„Svo þurfum við að skoða ný verkefni sem hann er að búa til fyrir okkur með þessum heimsóknum til brotaþola. Við skoðum þetta og tökum þetta mjög alvarlega,“ segir Gunnar Axel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert