Fjórar verslanir NTC lokaðar næstu mánuði

Svava Johansen eigandi NTC í Kringlunni fyrr í dag. Í …
Svava Johansen eigandi NTC í Kringlunni fyrr í dag. Í bakgrunni eru verslanir NTC sem urðu fyrir verulegu tjóni vegna brunans. mbl.is/Eyþór

Svava Johansen, eigandi NTC, segir fjórar af sex verslunum NTC verða lokaðar næstu mánuði vegna vatns- og reykskemmda.

Eldur braust út í þaki Kringlunnar á laugardag og hefur Kringlan verið lokuð síðan vegna skemmda.

„Við erum búin að opna Companys og Smash Urban en Gallerý 17, Kultur menn, Kultur og GS skór eru enn þá lokaðar og verða næstu tvo eða þrjá mánuði,“ segir Svava í samtali við blaðamann mbl.is í Kringlunni fyrr í dag.

Hún segir það muna um að NTC hafi netverslun og aðrar verslanir utan Kringlunnar.

Aðspurð segir hún bæði vatnsskemmdir og reykskemmdir vera í þessum fjórum verslunum sem eru allar í röð austan megin í Kringlunni.

Iðnaðarmenn unnu hörðum höndum í Kringlunni í dag.
Iðnaðarmenn unnu hörðum höndum í Kringlunni í dag. mbl.is/Eyþór

„Ég kom hérna um nóttina og var hér alla nóttina. Það var alveg hrikalegt að sjá hvernig þetta var. Við sáum ekki metra frá okkur fyrir reyk og það rigndi úr öllum kösturum í loftinu eins og hundrað sturtur,“ segir Svava.

„Það var vatn upp að ökklum í verslununum,“ segir hún.

Hefðir þú búist við því að fimm dögum seinna yrðu komnir gestir í Kringluna?

„Maður var bara eiginlega ekki að hugsa svo langt. Maður byrjar á að huga að tjóninu og vinnur sig upp og ég verð að segja að það er búið að vera ótrúlega hröð vinna hérna,“ segir Svava.

Reyna að klára viðgerðir sem fyrst

Hver eru næstu skref hjá ykkur?

„Það er verið að rífa innréttingar og annað út og svo hefst uppbygging. Við munum reyna að klára þetta á eins stuttum tíma og við getum. Það er hagur okkar og allra,“ segir Svava.

Ertu ekki ánægð sjá einhverjar búðir hjá þér opna?

„Jú við vorum að koma úr Companys og ég er glöð að sjá allar heilu vörurnar þar. Það er engin lykt þar og hún hefur minnkað mjög hratt í húsinu,“ segir Svava.

Glöð að geta opnað í dag

Blaðamaður mbl.is ræddi einnig við verslunarstjóra Companys, sem er í eigu NTC, og kveðst hún glöð að geta opnað verslunina í dag.

„Ég er rosa glöð, það er æðislegt að fá að opna,“ segir María Guðrún Sveinsdóttir verslunarstjóri Companys.

Strax og Kringlan opnaði í morgun gerði fólk sér ferð …
Strax og Kringlan opnaði í morgun gerði fólk sér ferð í verslunarmiðstöðina. mbl.is/Eyþór

Aðspurð segir María verslunina hafa sloppið við reykskemmdir í vörum verslunarinnar og ekkert í vegi fyrir því að opna í dag.

„Það er ferlega súrt,“ segir María um allar þær verslanir sem ekki geta opnað í dag vegna skemmda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert