Sakborningum fjölgar í máli Quang Lé

Að sögn Gunnars hefur enginn sem áður var talinn þolandi …
Að sögn Gunnars hefur enginn sem áður var talinn þolandi í málinu fengið stöðu sakbornings. Samsett mynd

Sakborningar í umfangsmiklu sakamáli tengdu veitingamanninum Quang Lé eru orðnir tólf talsins.

Þrír fengu stöðu sakbornings eftir húsleit lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í maí en áður var greint frá því að níu væru með réttarstöðu sakbornings. 

Allir sakborningar að einum undanskildum eru af víetnömskum uppruna.

Á ekki von á fleiri sakborningum 

Gunnar Axel Davíðsson, lögreglumaðurinn sem fer með rannsókn málsins, kveðst ekki eiga von á því að sakborningunum fjölgi enn frekar þó hann útiloki það ekki.

„Maður veit þó aldrei eftir því sem yfirferð gagna vindur fram,“ segir Gunnar.

Quang Lé, auk hinna ellefu sakborninganna, er grunaður um umfangsmikil mansalsbrot, peningaþvætti, brot á at­vinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.

Að sögn Gunnars hefur enginn sem áður var talinn þolandi í málinu fengið stöðu sakbornings.

Komið hefur fram að rannsóknin beinist einnig að fíkniefnalagabrotum en ekki hefur fengist staðfest að athugun á þeim þætti rannsóknarinnar hafi borið árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert