Ummæli þingmanns „ömurleg“

Fjölnir Sæmundsson og Andrés Ingi Jónsson.
Fjölnir Sæmundsson og Andrés Ingi Jónsson. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Eggert

Lögreglumenn eru margir undrandi á ummælum Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata, sem snúast um veru þeirra inni í Alþingishúsinu og eftirlit lögreglu með ráðherrum. Þingmaðurinn hafi engar forsendur til að meta nauðsynlegan viðbúnað lögreglu hverju sinni. Þetta segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, við Morgunblaðið.

„Það er ólíðandi að tveir sérsveitarmenn séu á sveimi í kringum þingsalinn í hvert sinn sem forsætisráðherra mætir á Alþingi. Þessi lögregluvæðing í kringum ríkisstjórnina er ógnvænleg þróun sem þarf að spyrna við,“ skrifar Andrés Ingi á samfélagsmiðli sínum.

Fjölnir undrast þessa skoðun þingmannsins. Lögreglan sé í sama liði og almenningur í landinu, starfi í þágu almennings og njóti yfir 80% trausts.

„Lögreglumenn hafa árum saman staðið vaktina inni í Alþingishúsinu, Stjórnarráðinu og á Bessastöðum. Það er því ekkert nýtt við það að lögreglan gæti öryggis ráðamanna. Nauðsynlegur viðbúnaður er metinn af ríkislögreglustjóra og Andrés Ingi veit að sjálfsögðu ekki forsendur hans. Það verður að segjast hreint út – fyrir okkur lögreglumenn eru þessi ummæli þingmannsins algerlega ömurleg. Þetta er jú ekkert annað en fólk sem er að sinna sínum störfum. Það er ekki eins og lögreglan sé að biðja sérstaklega um að vera þarna,“ segir Fjölnir og bætir við að þeir lögreglumenn sem standa vaktina inni í Alþingishúsinu geri það af virðingu.

„Svona ummæli gera fátt annað en að skapa úlfúð nema þetta séu einhverjar atkvæðaveiðar. Ég skil vel að fólk vilji búa í friðsömu samfélagi en þá verður auðvitað að vinna að því. Og Andrés Ingi er í aðstöðu til þess.“

Haldi sig á kaffistofunni

Í samtali við Morgunblaðið segir Andrés Ingi lögreglumenn vel mega sitja inni á kaffistofu Alþingis, rétt eins og bílstjórar ráðherra gera. Það að lögreglumenn séu nálægt þingsal finnst honum hins vegar aðfinnsluvert.

„Það sem lögreglan gerir fyrir ráðherrann og metið er á grundvelli einhvers hættumats eru hlutir sem eiga sér stað úti í almenningi. Ekki inni í þinghúsinu sjálfu. Þegar ráðherrann er svo kominn inn í þingsal þá steðjar engin ógn að honum. Og þá er um leið ekkert sem kallar á að lögreglan sé tiltæk,“ segir Andrés Ingi og heldur áfram: „Þessir lögreglumenn sem hafa það hlutverk sérstaklega að gæta öryggis forsætisráðherra hafa ekkert hlutverk á annarri hæð þinghússins í kringum þingsalinn. Þess vegna er eðlilegt að þeir, líkt og aðrir fylgihnettir ráðherrans, séu bara frammi í kaffi.“

Spurður hvernig lögreglan eigi að gæta ráðherrans þegar þeir fylgja honum ekki svarar Andrés Ingi:

„Varla þarf lögreglan að hafa ráðherrann í augsýn allan tímann. Þingsalur Alþingis er öruggur. Ef hann er það ekki, þá er alveg ljóst að ekki er hægt að halda þar þingfundi. Það að lögreglan standi vörð í hliðarsal þingsins gefur fólki þá tilfinningu að það sé einhver ógn inni í þingsalnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert