Gætu klárað málin 60 um helgina

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir allt stefna í að þingmönnum takist að afgreiða um 60 mál í dag og á morgun, fyrir þinglok, að því gefnu að ekkert komi upp á.

Samvinna um afgreiðslu mála ríki en ljóst sé að þingfundur muni standa fram á nótt.

„Það hefur gengið vel í dag og ég geri ráð fyrir að við verðum með umræður hér í þinginu fram á nótt, og tökum síðan aftur til starfa snemma í fyrramálið, svo sjáum við bara hvort það er raunhæft að klára annað kvöld eða ekki. Það ræðst nú bara af gangi mála og aldrei hægt að slá neinu föstu fyrir fram í því,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Ágætis samvinna um afgreiðslu mála 

„Það er ágætis samvinna um afgreiðslu mála núna, þannig að það út af fyrir sig er jákvætt en það eru auðvitað mörg mál sem bæði á eftir að ræða, og greiða atkvæði um,“ segir Birgir og heldur áfram:

„Þannig að það er auðvitað ákveðin óvissa með hvernig því miðar áfram. En alla vega eins og sakir standa þá gengur þetta ágætlega. Jafnvel þó það sé ágreiningur um einstök mál, þá geri ég ekki ráð fyrir neinum sérstökum, eða óvenjulegum töfum á því.“

Erfitt að segja til um umræðutíma

Aðspurður segir Birgir málin vera um 60 sem þingmenn stefna á að afgreiða. 

„Fyrir daginn í dag gerði ég ráð fyrir því að við værum með svona um það bil sextíu mál sem við ætluðum að ljúka umfjöllun um og mér sýnist að það verði svona nokkurn veginn niðurstaðan. Þetta eru auðvitað mál, sem að í mörgum tilvikum eru búin að vera vikum og mánuðum saman í meðferð í þinginu, en nú er komið að loka afgreiðslunni og það auðvitað getur tekið einhvern tíma.“

Þrátt fyrir að vinnan sé tímafrek sé allt þó nokkurn veginn á áætlun.

„Við erum svona nokkurn veginn á áætlun, en auðvitað, eins og maður segir, það eru eftir umræður í þónokkrum málum, bæði í kvöld og á morgun. Og við getum aldrei sagt fyrir fram hversu langan tíma þær taka,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert