Landsréttur þyngdi dóm Fannars um tvö ár

Fannar Daníel Guðmundsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í október, þegar aðalmeðferðin …
Fannar Daníel Guðmundsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í október, þegar aðalmeðferðin fór fram. mbl.is

Landsréttur hefur dæmt Fannar Daníel Guðmundsson í tíu ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps á veit­ingastaðnum Dubliners í mars á síðasta ári. Landsréttur þyngir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um tvö ár. 

Fannar var ákærður fyrir tilraun til manndráps á skemmti­staðnum Dubliner í mars á síðasta ári með því að hafa farið þangað inn grímu­klædd­ur og vopnaður hlaðinni af­sagaðri hagla­byssu og beint henni að þrem­ur viðskipta­vin­um og barþjóni áður en hann hleypti af einu skoti rétt hjá fólk­inu.

Í niðurstöðu landsréttar segir að hending ein virðist hafa ráðið því að enginn varð fyrir skotinu og næsta víst að alvarlegt líkamstjón eða mannsbani hefði þá hlotist af og var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu því staðfest. 

Sló mann í höfuðið með glerflösku 

Málið var höfðað með fjórum ákærum sem voru sameinaðar í eitt mál fyrir héraðsdómi. Fyrsta ákæran var gefin út af héraðssaksóknara þann 5. júní 2023 á hendur Fannari fyrir umrædda tilraun til manndráps.

Önnur og þriðja ákæran voru gefnar út á hendur Fannari og Ara Ívars tíu dögum seinna fyrir frelsissviptingu og rán með því að hafa að morgni sunnudagsins 6. mars 2022 svipt mann frelsi sínu í um fimm klukkustundir á heimili mannsins, beitt hann ofbeldi og haft í hótunum við hann í því skyni að ná af manninum verðmætum. 

Var Ari ákærður fyrir að hafa slegið manninn í höfuðið með glerflösku og í kjölfarið hafi þeir bundið manninn á höndum og fótum í rúmi hans þar sem Fannar er sagður hafa lagt hníf að hálsi og enni mannsins og hótað honum lífláti. 

Hótaði að reka sporjárn í endaþarm mannsins

Fannar er sagður hafa otað að manninum sporjárni, hótað að reka það inn í endaþarm hans og neytt hann þannig til að gefa upp lykilorð að farsíma sínum og heimabanka.

Í ákæru Fannars var honum einnig gefið að sök nauðgun og annars konar kynferðisbrot og er athæfinu nánar lýst í dómnum. Þar segir að Fannar hafi, þar sem maðurinn lá bundinn í rúminu á höndum og fótum, dregið niður um hann buxurnar, þrýst klaufhamri í endaþarmsop mannsins og þannig skekið hamarinn fram og til baka. 

Þá segir jafnframt að Fannar hafi slegið manninn tvívegis með hamrinum í getnaðarlim mannsins á sama tíma og Fannar tók athæfið upp á farsíma hans. Þá hótaði Fannar að setja myndskeiðið í dreifingu ef maðurinn myndi leita til lögreglu.  

Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms 

Á meðan á þessu stóð safnaði Ari saman lausafé í eigu mannsins sem þeir báru út í bíl áður en þeir óku af stað og skildu manninn eftir bundinn í rúminu með þeim afleiðingum að hann varð fyrir líkamstjóni. 

Ari lagði fram frávísunarkröfu vegna ákærunnar sem var á því reist að ekki hafi verið höfð uppi í málinu refsikrafa vegna nytjastuldar. Landsréttur hafnaði henni og sagði hana með öllu haldlausa þar sem stuldurinn var ekki skilyrði málshöfðunar.

Landsréttur staðfesti því niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu samkvæmt ákærum héraðssaksóknara. 

Stal humarhölum, blómapotti og töfrasprota úr Hagkaup

Fjórða ákæran var síðan gefin út á hendur Ara þann 29. ágúst sama ár fyrir nokkur umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og þjófnað. Þjófnaðurinn átti sér stað í verslun Hagkaups í spönginni þann 29. september árið 2022 þegar Ari stal humarhölum, blómapotti, töfrasprota og fæðubótarefnum að verðmæti 140.861 króna. 

Ari játaði sök samkvæmt ákærunni og staðfesti Landsréttur því dóm héraðsdóms. 

Litið til alvarleika brotanna við ákvörðun refsingar 

Við ákvörðun refsingar Fannars var litið til þess hversu alvarleg brot hans voru. Auk þess sem kynferðisbrot hans gagnvart manninum var framið á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt.

Þá er þess getið í dómnum að Fannar eigi að baki allnokkurn sakarferill, en í mars í fyrra var hann meðal annars dæmdur í  í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn umferðarlögum, vopnalögum og lögum um ávana-og fíkniefni og jafnframt sviptur ökurétti í sex ár og níu mánuði.

Var refsing hans því ákveðin sem hegningarauki, framangreindur skilorðsdómur tekinn upp og Fannari dæmd refsing í einu lagi sem var hæfilega ákveðin fangelsi í tíu ár. Til frádráttar refsingarinnar kemur óslitið gæsluvarðhald hans frá 14. mars 2023. 

Ari á umtalsverðan sakarferil að baki 

Hvað Ara varðar þá var honum jafnframt dæmdur hegningarauki en hann á, líkt og Fannar, umtalsverðan sakarferil að baki. Var refsing hans þannig ákveðin sem hegningarauki við dóm frá því í apríl 2022 þar sem Ara var gerð sektarrefsing fyrir umferðarlagabrot og hann sviptur ökurétti í sex mánuði. 

Þá var hann einnig dæmdur til þriggja mánaða fangelsisrefsingar þann 25. maí 2020, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn umferðarlögum, vopnalögum og lögum um ávana-og fíkniefni og jafnframt sviptur ökurétti í eitt ár. 

Þar sem hann rauf skilorð þess refsidóms var ákveðið að hann skyldi sæta fangelsi í þrjú ár. Landsréttur staðfesti ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert