Leita allra leiða til að hægja á rennslinu

Hraunkæling er í fullum gangi.
Hraunkæling er í fullum gangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna stóð yfir í alla nótt við að kæla niður hraunið sem rennur í átt að varnargarðinum við Svartsengi. Hraunkælingin virðist hafa náð að halda eitthvað aftur að hraunspýjunum þremur sem hafa fikrað sig yfir garðana.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, spurð út í stöðu mála.

Alls voru 35 manns að störfum á svæðinu í nótt. Núna eru 10 manns að vinna við hraunkælinguna, auk starfsmanna á vinnuvélum.

„Þetta er verkefni sem heldur áfram í dag,” segir Hjördís og bætir við að hraunið renni hægt.

„Það má segja að enn sem komið er erum við að reyna að finna allar leiðir og vinna með öllum þeim sérfræðingum sem við getum til þess að hægja á rennslinu,” segir Hjördís.

Annar varnargarður kemur til greina

Meðal annars er verið að athuga hvort hægt verði að reisa annan varnargarð fyrir innan þann sem fyrir er. „Við erum alltaf að vona að hraunið finni sér aðra leið fyrir utan varnargarðinn en þetta er orðið meira vandamál þegar það er komið inn fyrir,” greinir hún frá. „Við leitum allra leiða til að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á mikilvæga innviði.”

Stöðufundur vegna verkefnisins hófst klukkan 8 í morgun þar sem staðan er tekin eftir nóttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert