Segja lögreglu hafa gætt stillingar og meðalhófs

Frá vettvangi mótmælanna í maí.
Frá vettvangi mótmælanna í maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefnd um eftirlit með lögreglu telur lögregluþjóna á vettvangi mótmæla við Skuggasund þann 31. maí hafa gætt stillingar á vettvangi og gætt þess að mótmælendum yrði ekki gert tjón, óhagræði eða miski umfram það sem óhjákvæmilegt var miðað við aðstæður.

Lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem hindruðu m.a. för ráðherra. Nokkrir leituðu á bráðamóttöku í kjölfarið. 

Telur nefndin að lögreglan hafi ekki gengið lengra en nauðsyn krafði við störf sín í umrætt sinn og því hafi meðalhófs verið gætt. 

Þetta kemur fram í ákvörðun nefndarinnar sem tekin var í morgun.

Tekið er fram að enginn hafi slasast af hálfu mótmælenda svo vitað sé. 

Í niðurstöðu nefndarinnar segir jafnframt að nefndin telji ekki að uppi séu vísbendingar um mögulega refsiverða eða ámælisverða háttsemi starfsmanna lögreglu. Er því ekki talið tilefni til að aðhafast frekar vegna erindisins.

Mótmæltu við fund ríkisstjórnar

Hópur fólks kom saman við Skuggasund að morgni 31. maí, fyrir utan fund ríkisstjórnarinnar, til að mótmæla aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í málefnum Ísraels og Palestínu.

Var lögregla með viðbúnað á vettvangi.

Að fundi loknum hindruðu mótmælendur för ráðamanna. Lögðust mótmælendur á Lindargötuna fyrir framan grinverkið þar sem beygt er niður Skuggasund. 

Lögreglumenn gripu þá til úðavopns og beittu á mótmælendur í þeim tilgangi að dreifa hópnum af götunni, að því er segir í ákvörðun nefndarinnar, til að koma ráðherrabifreið í gegnum hliðið niður Skuggasund.

Óskuðu eftir myndefni samdægurs

Myndefni af vettvangi sem sýnir lögreglu beita úðavopnum var birt í fjölmiðlum skömmu síðar.

Óskaði nefndin samdægurs eftir myndefni úr búkmyndavélum og eftirlitsmyndavélum á svæðinu.

Í ákvörðun nefndarinnar segir að nefndin hafi verið með aðgang að upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi og fjölmörgu myndefni sem birst hefur í fjölmiðlum.

„Þetta myndefni gefur mjög góða sýn á það hvernig vettvangur og framkoma fólks kemur fyrir augu lögreglumannsins og hvernig aðstæður voru á staðnum,“ segir í ákvörðun nefndarinnar.

Ekki frjálst að gera hvað sem er

Í niðurstöðu nefndarinnar er tekið fram að rétturinn til mótmæla sé rúmur en mótmælendum sé aftur á móti ekki frjálst að gera hvað sem er.

„Í 19. gr. lögreglulaga er kveðið á um skyldu til að hlýða lögreglu. Þar kemur fram að almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu sem lögreglan gefur, svo sem við umferðarstjórn eða til að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“

Þá kemur fram að lögreglu sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa en aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. 

Viðvörunum „tekið með háði“

Í ákvörðuninni þylur nefndin upp atburðarásina eins og hún birtist í myndefni af vettvangi.

Segir nefndin lögreglu hafa gefið mótmælendum ítrekaðar skipanir um að víkja af götunni en að hluti mótmælenda hafi ekki hlýtt skipununum. Lögreglan hafi þá reynt að flytja mótmælendur með handafli en mótmælendur fóru aftur á götuna.

„Þá gaf stjórnandi á staðnum skipun um að taka upp úðabrúsa og gefa þannig til kynna að þeir yrðu notaðir ef ekki yrði farið að skipunum lögreglu. Mótmælendum var einnig gefin munnleg viðvörun um að piparúði yrði notaður ef þeir færðu sig ekki af götunni. Viðvörunum lögreglu um notkun á úðavopni var tekið með háði og skipanir lögreglu hunsaðar.“

Telur nefndin að öllum hefði átt að vera ljóst hvað til stæði hjá lögreglu fylgdu þeir ekki skýrum fyrirmælum.

Aðgerðin hefði samræmst skyldum lögreglu

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að af þeim upptökum sem nefndin hefur undir hönum verði ekki annað séð en að aðgerðir lögreglu samræmist skyldum hennar, þar með talið þegar ákveðið var að beita piparúða.

„Enginn slasaðist af hálfu mótmælenda svo vitað sé. Af skoðun þess myndefnis sem fyrir liggur í málinu, sem er umtalsvert, verður ekki annað ráðið en að lögreglumenn hafi gætt stillingar á vettvangi og gætt þess að mótmælendum yrði ekki gert tjón, óhagræði eða miski umfram það sem óhjákvæmilegt var miðað við aðstæður, í samræmi við 2.tl. 13. gr. lögreglulaga. Telur nefnd um eftirlit með lögreglu að lögreglan hafi ekki gengið lengra en nauðsyn krafði við störf sín í umrætt sinn og því hafi meðalhófs verið gætt.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert