Skaðabótaskylda dæmd vegna vinnu í mygluðu húsi

Tekist var á um hvort vinnuveitandinn bæri skaðabótaskyldu eða ekki …
Tekist var á um hvort vinnuveitandinn bæri skaðabótaskyldu eða ekki vegna tjóns sem orsakaðist af myglu. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur dæmt vinnuveitenda til að bera tvo þriðju hluta skaðabótaskyldu tjóns sem húsasmiður sem starfaði hjá honum varð fyrir vegna vinnu í mygluskemmdu húsi. Áður hafði héraðsdómur gert vinnuveitandanum að bera fulla skaðabótaskyldu en við áfrýjun var hlutfallið minnkað vegna stórkostlegs gáleysis húsasmiðsins.

Húsasmiðurinn varð fyrir líkamlegu tjóni í starfi fyrir vinnuveitandann í mygluskemmdu húsi árið 2015 en tekist var á um hvort vinnuveitandinn bæri skaðabótaskyldu eða ekki.

Í janúar 2021 hafði Héraðsdómur Suðurlands dæmt vinnuveitandann til fullra skaðabótaskyldu en hann áfrýaði málinu til Landsréttar.

Meðal annars var tekist var á um hvenær smiðurinn hóf störf í húsinu, hvort mygla hafi verið sjáanleg og hvort hlífðargrímur hafi staðið húsasmiðnum til boða.

Sýndi af sér stórkostlegt gáleysi

Í dómi Landsréttar kom fram að vinnuveitandinn yrði að bera ábyrgð á því að ekki hafi verið gerð betri rannsókn á myglu í húsinu og að hann hefði brotið gegn lagaákvæðum þar sem  hvorki væri sannað að áhættumat á verkinu hefði legið fyrir þegar húsasmiðurinn hóf störf í húsinu né að það hefði verið kynnt honum.

Hins vegar taldi dómurinn sömuleiðis að húsasmiðurinn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa ekki notað hlífðargrímur við störf í mygluðu húsinu og því var honum gert að bera hluta skaðabótaskyldunnar.

Niðurstaða dómsins var að vinnuveitandinn bæri tvo þriðju hluta skaðabótaskyldunnar vegna þess líkamlega tóns sem húsasmiðurinn hefði orðið fyrir við störf í húsinu en hann sjálfur þriðjung. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert