Í gæsluvarðhaldi fram á föstudag vegna stunguárásar

Hinn grunaði verður í gæsluvarðhaldi til 28. júní.
Hinn grunaði verður í gæsluvarðhaldi til 28. júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður um þrítugt sem grunaður er um stórfellda líkamsárás í Kópavogi í gærkvöldi hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudaginn 28. júní.

Þetta staðfest­ir Elín Agnes Krist­ín­ar­dótt­ir, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar, í sam­tali við mbl.is.

Greint var frá því fyrr í dag að einn hefði verið handtekinn í gærkvöldi vegna átaka á göngustíg í Kópavogi. Er hinn grunaði sakaður um að hafa tekið upp hníf og beitt honum gegn tveimur mönnum.

Ekki í lífshættu

Að sögn Elínar er talið að annar hafi hlotið fjögur stungusár, þar af í hálsinn, og hinn tvo skurði á hendi.

Búið er að gera að sárum þess sem hlaut skurði á hendi. Maðurinn sem hlaut stungusár liggur enn á spítala en er þó ekki talinn í lífshættu.

Ekki eru talin vera tengsl á milli þess grunaða og mannanna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert