Landrisið virðist hægara en áður

Hraun streymir enn meðfram Sýl­ing­ar­felli norðan­verðu og við varn­argarð L1 …
Hraun streymir enn meðfram Sýl­ing­ar­felli norðan­verðu og við varn­argarð L1 þar sem spýj­ur hafa runnið yfir. mbl.is/Eyþór

Ekki er hægt að segja til um það að svo stöddu hvort aftur muni gjósa í Sundhnúkagígaröðinni. Virðist landrisið við Svartsengi nú vera hægara en þegar eldgosinu lauk 8. maí.

„Ætli við þurfum ekki aðeins að sjá hvað verður. Það er enn þá hraun að streyma við varnargarðinn þannig að það er spurning hvort að það sé eitthvað aðeins undir yfirborðinu eða ekki,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurð hvenær hægt verði að lýsa yfir formlegum goslokum. 

Veðurstofan sagði í dag að gosinu við Sundhnúkagíga virtist lokið. Engin virkni væri sjáanleg í gígnum. 

Verði áhugavert að skoða hvort glóð sé að sjá frá gosinu

„Það sem er að koma núna er líklega eitthvað sem hefur komið upp í gær,“ segir Bryndís um hraunið sem enn streymir á svæðinu. Aðspurð segir hún að á þessum tímapunkti sé ekki hægt að segja til um það hvenær hraunstreymið hætti, eða hvenær hraunið muni storkna.  

Spurð hvort einhverjar líkur séu á að gosið taki sig upp að nýju segir hún erfitt að meta líkurnar á því.

„Ef það verða einhverjar breytingar getur allt skeð, en svona eins og er þá er ekkert sem bendir til þess.“

Þá segir hún að það verði áhugavert, þegar fer að rökkva, að skoða hvort einhverja glóð sé að sjá frá gosinu.

„Við erum enn þá að fylgjast með þróuninni á svæðinu“

Spurð hvort það séu einhver merki um að aftur muni gjósa á svæðinu segir Bryndís ekki hægt að segja til um það að svo stöddu. 

„Við erum enn þá að fylgjast með þróuninni á svæðinu og það verður bara að koma í ljós hvert framhaldið verður.“

Landris á svæðinu er ekkert hægara eða hraðara en eftir að síðasta gosi lauk? 

„Það virðist nú vera hægara en eftir að síðasta gosi lauk,“ segir Bryndís en útskýrir að til þess að spá fyrir um framhaldið þurfi að meta stöðuna næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert