Umsóknum í Háskólann á Bifröst hefur fjölgað um 200%. Lydía Geirsdóttir, gæðastjóri hjá háskólanum, segir fjölgunina stafa af auknum gæðum námsins og betra orðspori skólans.
Gæðaráð íslenskra háskóla gerir gæðamat á öllum háskólum Íslands á fimm ára fresti, við síðasta gæðamat fékk Háskólinn á Bifröst athugasemdir þar sem mælt var með umbótum.
Lydía var fengin inn í skólann til þess að hjálpa til við að laga þau atriði sem athugasemdir voru gerðar við. Segir Lydía að hún hafi fengið viðurnefnið „harðstjóri með húmor“ í því ferli.
Í samtali við mbl.is segir hún fólk skorta skilning á hvað fjarnám sé og að einnig hafi vantað almennilega skipulagt gæðamat.
Skólinn hafi átt við orðsporsvandamál að stríða vegna þess að fjarnámið var ekki nægilega vel metið og skilningur á því ekki nógu góður.
„Fólk hugsaði um fjarnám sem afslátt af háskólanámi, að það væru ekki gerðar sömu kröfur og að það væri ekki eins erfitt,“ segir Lydía og tekur fram að Háskólinn á Bifröst sé hiklaust á pari við alla aðra íslenska háskóla með núverandi árangur í gæðamati.
Uppfært 24. júní.
Misskilnings gætti vegna ummæla sem voru höfð eftir samskiptastjóra háskólans upphaflega í fréttinni og hefur sá texti verið leiðréttur og fyrirsögn í tengslum við það.
„Háskólinn á Bifröst hefur náð miklum árangri á grundvelli gæðakerfis íslensku háskólanna. Árangurinn sem hér um ræðir snertir ekki gæði náms, sem uppfyllir eðli málsins samkvæmt alltaf ýtrustu gæðakröfur hjá starfandi háskólum, heldur að því að byggja upp og styrkja innviði háskólastarfseminnar. Það er svo aftur forsenda þess að háskólinn geti tekið við fleiri nemendum og eflt enn frekar akademískt rannsóknastarf innan sinna raða. Stærsti ávinningurinn hér, er þó vafalaust það stóra framfaraskerf sem hefur verið tekið varðandi aukið jafnrétti til háskólanáms óháð hamlandi þáttum á borð við búsetu,“ segir Helga Guðrún Jónsdóttir, samskiptastjóri hjá háskólanum.