Frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu samþykkt á Alþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þar segir að breytingarnar feli í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi.

Þá sé stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.

Jafnframt segir, að alls muni 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýja kerfinu sem tekur gildi þann 1. september 2025. Tekið er fram að viðamikill undirbúningur þurfi að eiga sér stað áður til að tryggja hnökralaus skipti á milli greiðslukerfa. 

Meðal nýmæla í nýja kerfinu

Samvinna þjónustuaðila og samhæfingarteymi: Samhæfingarteymi hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur: Nýr greiðsluflokkur, sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, stoppar í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests.

Örorkulífeyrir í nýju kerfi: Tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar sameinast í einn flokk: Örorkulífeyri. Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.

Hlutaörorkulífeyrir: Hlutaörorkulífeyrir er nýmæli sem ætlað er að tryggja betur afkomu þeirra sem geta unnið hlutastörf. Hann hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti.

Dregið úr hindrunum: Fólk sem fær greiddan örorkulífeyri getur í nýju kerfi haft 100.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki. Fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri og er í hlutastarfi getur haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki.

Virknistyrkur: Virknistyrkur grípur fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu með aðstoð Vinnumálastofnunar í allt að 24 mánuði.

Nánari upplýsingar er að finna hér.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert