„Lítur út fyrir að menn hafi haft ásetning“

Gistiheimilið Brunnhóll er á Hornafirði.
Gistiheimilið Brunnhóll er á Hornafirði. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Mennirnir sem að brutust inn á gistiheimilið Brunnhól í Hornafirði í gærnótt, og stálu peningaskáp með um hálfri milljón króna, eru enn ófundnir. Frekari tilkynningar um innbrot á svæðinu hafa ekki borist.

Þetta staðfestir Einar Sigurjónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Spurður um gang mála segir Einar málið vera í rannsókn.

„Það er í rannsókn og einhverjar vísbendingar svona sem er verið að fylgja eftir en ég held það hafi ekki komið fleiri tilkynningar eftir þetta gistiheimili í gær.“

Svartur Mitsubishi Outlander

Sigurlaug Gissurardóttir, eigandi gistiheimilisins, hefur greint frá því að eftir að myndefni úr eftirlitsmyndavélum hafi verið skoðað sé ljóst að mennirnir hafi komið við á fleiri stöðum á svæðinu yfir daginn.

„Í fram­hald­inu komu upp­lýs­ing­ar um að þeir hefðu keypt sér eitt­hvað á Olís-stöðinni á Höfn í gær og hót­el­stjór­inn á Breiðdals­vík setti líka inn að þess­ir menn hefðu fengið sér kaffi hjá þeim um há­degi í gær og úti á bíla­plan­inu hafi verið svart­ur jepp­ling­ur – Mitsubishi Outlander – eins og við vor­um eig­in­lega búin að telja að væri þeirra bíll,“ seg­ir Sig­ur­laug og bæt­ir við:

„Einn af okk­ar starfs­mönn­um – hann hafði farið á Höfn í gær og kom heim á putt­an­um eins og sagt er. Þá var hann tek­inn upp í af þess­um mönn­um seg­ir hann og í svört­um jeppa.“

Upplýsingar enn óljósar 

Einar segist ekki vita til þess að ábendingar hafi borist lögreglunni um mennina eftir að eigendur gistiheimilisins birtu myndefni úr eftirlitsmyndavélum.

„Ekki alla vegana sem hefur gefið okkur nafn og kennitölu sko.“ Þá hefði ekki komið á óvart ef þær upplýsingar hefðu fundist stuttu eftir að myndefnið var birt.

Hvað varðar hegðun mannanna inni á gistiheimilinu fyrr um daginn, þar sem þeir vitust „skimandi“ að sögn Sigurlaugar segir Einar: „Þetta lítur út fyrir að menn hafi haft ásetning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert