Tæplega 700 útskrifuðust frá HR

Einn af þeim 692 nemendum sem útskrifuðust frá Háskólanum í …
Einn af þeim 692 nemendum sem útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík í gær. Ljósmynd/Mummi Lú

692 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík í gær með alls 701 prófgráðu. Fyrir hádegi var brautskráning af tæknisviði og eftir hádegi var brautskráning af samfélagssviði. Báðar athafnir fóru fram í Eldborg í Hörpu.

Í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík kemur fram að 340 nemendur hafi útskrifast af tæknisviði, 226 karlmenn og 114 konur. 264 útskrifuðust úr grunnnámi, 73 úr meistaranámi og fjórir úr doktorsnámi. 55 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi við iðn- og tæknifræðideild. Frá tölvunarfræðideild útskrifuðust 111 úr grunnnámi, 15 úr meistaranámi og tveir úr doktorsnámi. 98 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi frá verkfræðideild, 58 úr meistaranámi og tveir úr doktorsnámi.

Það var fjölmenni við útskriftina í Eldborg í Hörpu í …
Það var fjölmenni við útskriftina í Eldborg í Hörpu í gær. Ljósmynd/Mummi Lú

352 nemendur útskrifuðust af samfélagssviði, 127 karlmenn og 225 konur. 220 útskrifuðust úr grunnnámi og 132 úr meistaranámi. 36 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi við íþróttafræðideild og 15 úr meistaranámi. Frá lagadeild útskrifuðust 41 úr grunnnámi og 37 úr meistaranámi. 63 útskrifuðust úr grunnnámi við sálfræðideild og 34 úr meistaranámi. Frá viðskipta- og hagfræðideild útskrifuðust 80 úr grunnnámi og 46 úr meistaranámi.

Eini skólinn sem er að hluta til fjármagnaður með skólagjöldum

Í ræðu sinni ræddi Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, meðal annars þá ákvörðun HR fyrr á árinu að afnema ekki skólagjöld, í kjölfar tilboðs frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu um fulla fjármögnun ríkisins gegn afnámi skólagjalda, en án þess að kostnaður færðist eitthvað til. Frá og með næstu haustönn verður HR því eini háskólinn á Íslandi sem er að hluta til fjármagnaður með skólagjöldum.

„Sú staða kallar á að við hugsum afar skýrt hvernig skóli við viljum vera og af hverju við leyfum okkur að innheimta skólagjöld. Hver er framtíðarsýnin, hver er sérstaðan og hvernig stöndum við okkur? Framtíðarsýnin er einföld: Við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi,“ sagði Ragnhildur meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert