Eldur verður lagður að anddyri við Eiríksstaði

Ekki verður lagður eldur að langhúsinu á Eiríksstöðum. Heldur verður …
Ekki verður lagður eldur að langhúsinu á Eiríksstöðum. Heldur verður meðal annars smíðað anddyri sem líkir eftir torfhúsum til forna, og síðan verður kveikt í því. mbl.is/Guðmundur Sv. Hermannsson

Eldur verður lagður að frístandandi anddyri við Eiríksstaði í Haukadal í Dalabyggð, á eldhátíð sem haldin verður fyrstu helgina í júlí. Eitthvað verður brennt á hverjum degi hátíðarinnar, í nafni rannsókna á eldvörnum til forna.

„Brennið til okkar að Eiríksstöðum 5. til 7. júlí 2024 og takið þátt í að skapa ógleymanlegar minningar og nýja þekkingu, þar sem leikið er með eld,“ segir um viðburðinn á vefsíðu Eiríksstaða.

Öll eru velkomin, að sögn Reynis A. Óskarssonar, eins af skipuleggjendum hátíðarinnar og annars forsprakka víkingarannsóknarhópsins Hurstwic.

Býst hann við því að fjölbreyttur hópur mæti á hátíðina, sem verður meðal annars skipaður fólki úr fræðasamfélaginu, og þeim sem hafa áhuga á víkingum, brennum og vargaskap.

Frá einum af fortilraununum sem gerðar voru.
Frá einum af fortilraununum sem gerðar voru. Skjáskot/Youtube

Íkveikjan tilraunakennd fornleifafræði

„Þetta verða þrír dagar og það verður eitthvað brennt hvern einasta dag,“ segir Reynir í samtali við mbl.is. Hann segir að í heildina verði brenndar sjö hurðir til þess að líkja eftir því hvernig eldur var lagður að víkingaskálum á Íslandi til forna.

„Svo ætlum við að byggja anddyri, sem er hluti af skálanum, því við byggjum ekki heilan skála. Þá getum við séð hvernig eldurinn fer inn í viðarverkið sjálft,” segir Reynir. Íkveikjan á anddyrinu telst vera tilraunakennd fornleifafræði.

Ein af eldtilraunum sem gerðar voru í Bandaríkjunum.
Ein af eldtilraunum sem gerðar voru í Bandaríkjunum. Skjáskot/Youtube

Steinakast og eldur lítið rannsökuð

Reynir segir að Hurstwic einblíni á vísindalegar tilraunir til að kanna hvernig víkingar börðust.

„Það sem er minnst rannsakað þegar kemur að víkingum og bardögum eru steinakast og eldur,“ segir hann.

Hurstwic og Eiríksstaðir hafi byrjað á smáum tilraunum til að kanna hvernig eldi var beitt sem vopni á tímum víkinganna. Verkefnið hafi síðan stækkað og sé nú gert í samstarfi við fjölbreyttan hóp einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna.

Meðal þeirra sem koma að rannsóknunum og hátíðinni eru: Eiríksstaðir, Hurstwic, brunavarnadeild WPI-háskólans í Bandaríkjunum, Þjóðminjasafnið, Skóræktin, Húsasmiðjan og brunavarnir Dala, Reykhóla og Stranda.

Vonast er til þess að tilraunirnar veiti innsýn inn í …
Vonast er til þess að tilraunirnar veiti innsýn inn í hvernig torfbæir brenna. Skjáskot/Youtube

Brunavarnir til forna

Fimm fortilraunir hafa þegar verið framkvæmdar í Bandaríkjunum. Vonast er til þess að tilraunirnar á Eiríksstöðum í júlí muni veita rannsakendum innsýn í atburði úr fornaldarsögum, eins og Flugumýrarbrennu eða Njálsbrennu.

Munu tilraunir einnig veita nýja sýn í brunavarnir í þeim torfhúsum sem að þjóðminjasafnið á nú þegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert