Köld sumur ekki endilega komin til að vera

Útbreiðsla hafíss skilur eftir sig kaldan sjó.
Útbreiðsla hafíss skilur eftir sig kaldan sjó. mbl.is/Eyþór

Íslendingar þurfa ekki endilega að búast við köldum sumrum næstu árin þrátt fyrir að sjórinn við Ísland og meðalhiti á landinu mælist undir meðallagi að sögn veðurfræðings.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vakti í morgun athygli á þýðingu sjávarhitans fyrir meðalhita mánaða.

Birti hann á Facebook-síðu veðurvefsins Bliku annars vegar kort frá júní á þessu ári þar sem sást áætlað frávik sjávarhita í júní og mældist hann fremur kaldur. Hins vegar sýndi hann kort frá árinu 2010 þar sem hlý frávik voru í sjávarhitanum við Ísland.

Vísbendingar um kaldan sjó austan lands

„Sá mánuður [júní 2010] var einn sá hlýjasti júní sem um getur hér á landi. Meðal annars í Stykkishólmi með samanburð aftur til 1845. Í Reykjavík júní 2010: 11,4°C í stað 8,7°C árið 2024,“ ritar Einar.

„Það kemur í ljós að það er frekar kaldur sjór í kringum Ísland miðað við það sem er venjulega í júní,“ segir Einar í samtali við mbl.is en að hitamyndir séu teknar af jörðinni og gerir NOAA það.

Hann nefnir vísbendingar um mjög kaldan sjó fyrir austan land en að það komi ekki nægilega fram á kortunum sem hann birti á facebook.

Meiri hafís en undanfarin ár

Spurður hvort köld sumur séu komin til að vera vegna þessa svarar Einar að svo þurfi alls ekki að vera.

„En þetta er tregðan í sjónum vegna þess að það var meiri hafís fyrir í vetur en verið hefur síðustu áratugi. Þetta er alls ekki mikill hafís miðað við það sem var í gamla daga,“ segir Einar.

Þessi útbreiðsla hafíss skilji eftir sig kaldan sjó fram á sumarið að sögn Einars. Nefnir hann sem dæmi að ef maður tekur bala af vatni og setji út í ísmola, þá kólni yfirborðið.

„Þetta segir hins vegar ekkert til um næstu ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert