Auglýst er eftir viðburðastjóra samnorræns skála á heimssýningunni sem haldin verður í Osaka í Japan á næsta ári.
Utanríkisráðuneytið vekur athygli á starfsauglýsingunni í tilkynningu á Facebook-síðu ráðuneytisins frá því í dag. Kemur þar fram að leitað sé eftir umsækjanda með þekkingu á Japan, reynslu af skipulagningu viðburða og kunnáttu í Norðurlandatungumáli.
Í sjálfri starfsauglýsingunni kemur fram að heimssýningin verði haldin 13. apríl til 13. október á næsta ári og að sýningin sé vettvangur ólíkra þjóða til að deila hugmyndum sem stuðli að bjartari framtíð.
Greint er frá því að samnorræni skálinn á heimssýningunni sé samstarfsverkefni Dana, Finna, Íslendinga, Norðmanna og Svía. Þar sé menning, nýsköpun og sjálfbærni þjóðanna fagnað á alþjóðlegum vettvangi.
Starf viðburðastjóra skálans felur í sér stjórn og skipulagningu ólíkra viðburða. Er þess þá krafist að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun viðburða og ráðstefna, segir í auglýsingunni.