Íbúar á Húsavík eru andvígir uppbyggingu verslunarkjarna sunnan við bæinn. Alls bárust átján umsagnir um skipulags- og matslýsingu Norðurþings fyrir breytingu á aðalskipulagi Norðurþings í suðurbæ Húsavíkur.
Fram kemur í skipulags- og matslýsingunni að skipulagsyfirvöld telji óheppilegt að stór matvöruverslun sé staðsett í miðri bæjartraffíkinni á Húsavík.
Vilji skipulagsyfirvalda stendur til þess að horfa frá núverandi stefnu aðalskipulags um uppbyggingu verslunar og heimila uppbyggingu nútímalegs verslunarkjarna með dagvöruverslun og minni smásöluverslunum sunnan við bæinn.
Íbúar gera alvarlegar athugasemdir við breytinguna og benda á að bæta eigi þjónustuna í miðbænum í stað þess að skerða hana. Þeir telja mikilvægt fyrir samfélagið á Húsavík að mikilvæg þjónusta eins og þessi sé staðsett miðsvæðis, hún dragi að sér mannlíf og sé aðgengileg flestum þar.
Einn þeirra sem skiluðu inn athugasemd vill að lögð verði áhersla á metnaðarfulla framtíðarsýn í nýju aðalskipulagi þar sem þétting og efling verslunar, athafnalífs og mannlífs í miðbæ Húsavíkur verði eitt undirstöðumarkmiða.