„Ég hef verið fjarlægður oftar en einu sinni með lögregluvaldi af heilsugæslu og bráðamóttöku í örvæntingu minni eftir að fá aðstoð.“
Þetta segir Sævar Daníel Kolandavelu, 38 ára gamall faðir, hugvísindamaður, tónlistarmaður og rithöfundur.
Heilsufarsástandi hans hefur verið lýst þannig að líkami hans sé að liðast í sundur. Hann er með meðfæddan stoðkerfisgalla, sem gert hefur að verkum að átak á líkamann hefur verið ójafnt, sem aftur olli því að hann slasaðist alvarlega við æfingar árið 2016. Síðan þá hefur hann endurtekið leitað hjálpar í neyðarstöðu.
Mjöðm hans er slitin frá hrygg öðrum megin og þrír hryggjarliðir eru lausir. Hann hefur orðið fyrir 16 afleiddum áverkum upp hryggjarsúluna sökum ómeðhöndlaðra áverka og hefur gengið ótrúlega þrautagöngu í leit að lækningu.
Íslenska heilbrigðiskerfið hefur að sögn Sævars hafnað að taka til greina lýsingar hans á alvarleika stöðunnar, fyrst sem sjúklings og svo vísindalegum gögnum sem var safnað saman með aðstoð fjölda velviljaðra sérfræðinga erlendis.
Í vegferð sinni við að eiga samtal við íslenska kerfið hefur Sævar kynnst fjölmörgum Íslendingum sem hafa svipaða sögu að segja en hann skapaði síðuna „Rétturinn til að lifa“ á facebook, þar sem um þrjú þúsund Íslendingar hafa deilt sögum sínum innan úr heilbrigðiskerfinu.
Sævar hefur að eigin sögn verið skilinn eftir án aðhlynningar í langvarandi kvöl undangengin sjö ár. Hann og hans bakland hafa kostað miklu til við að sinna neyðarástandinu og koma honum undir læknishendur.
Hann segir íslenska heilbrigðiskerfið ekki hafa tekið á móti einu einasta orði sem hann hefur sagt, ekki einu sinni að hann sé slasaður og þjáður. „„Við skulum nú sjá til með það kallinn minn, þú getur ekki vitað það,“ segja þeir.
Sævar hefur tekið málin í sínar eigin hendur og sjálfur borið sig eftir læknisaðstoð og meðferðum við hæfi. Sjálfur hefur hann haldið utan um flóknar sérfræðiupplýsingar um eigin heilsu og borið allan kostnað vegna þess.
Hann hefur ferðast meðal annars til Þýskalands, Indlands, Svíþjóðar og nú síðast til Tyrklands til að elta uppi sérhæfðustu sérfræðinga heims til að fá aðstoð við greiningu vandans.
Í Tyrklandi er teymi með aðstöðu, vilja og þekkingu til að takast á við ólíka þætti málsins og þangað stefnir Sævar til að fá bót meina sinna.
Sævar safnar fyrir þessu stóra verkefni á Karolina Fund og gengur söfnunin vonum samkvæmt. Ríflega helmingur hefur safnast af 40 þúsund evra takmarki, eða um þrjár og hálf milljón króna af þeim rúmlega sex milljónum sem ætlunin er að safna.
Söfnun Sævars á Karolina Fund gengur ekki út á beina styrki en Vörumerkið Thugmonk hefur verið stofnað, sem haldið úti af góðgerðarfyrirtæki sem selur vörur af ýmsu tagi. Einnig heldur hann úti styrktarreikningi: 0537-26-000896 kt. 160985-3139.
Logi Unnarsson Jónsson, vinur Sævars, hefur unnið að hans málum í um hálft ár. Hann segist sjá og upplifa betur og betur með tímanum hversu gríðarlega mikið álag er búið að vera á Sævari og hversu sterkur Sævar sé búinn að vera í þessu ferli.
Segir Logi í samtali við Morgunblaðið að vinur hans sé kominn andlega mjög langt með sjálfan sig og lýsir því fyrir blaðamanni hvernig Sævar hugleiðir sig í gegnum stöðuga verki alla daga. Hann segir sér hafa verið brugðið mjög á þrautagöngu vinar síns þegar hann fór inn í ferlið með honum í febrúar en þangað til hafði hann fylgst með Sævari utan frá.
Loga var einnig mjög brugðið að heyra frá fólki sem Sævar hefur verið í sambandi við sem lent hefur í svipaðri stöðu - lent undir í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Fólki sem fær ekki þá nauðsynlegu hjálp sem það þarf á að halda.
Hann segir mál Sævars afskaplega flókið í samanburði við mál sem menn eru vanir að eiga við í fámennu landi. Hann segir þannig ekki hægt að miða við reynslu einhvers annars. Á sínum tíma hafi Sævar fengið rangar greiningar og verið sendur í ranga meðhöndlun sem hafi gert ástand hans enn verra.
Logi segir Sævar ætla sér að nýta reynslu sína og þekkingu til að hjálpa öðrum að finna leiðir til lausna og lækninga. Hann hafi stofnað fyrirtæki og haldi uppi góðgerðastarfsemi ásamt vinafólki sínu í Indlandi. Hann hjálpi fátækum börnum og sendi peninga út mánaðarlega til að fjármagna máltíðir daglega þrátt fyrir að vera í þeirri stöðu sem hann sjálfur er í. „Í mínum huga er þetta ein mesta hetja sem ég hef hitt á minni ævi,“ segir Logi.
Rætt er ítarlega við Sævar og Loga í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.