Viktoría Benný Breiðfjörð Kjartansdóttir
Nespresso hefur opnað nýja aðstöðu í Kringlunni eftir að eldsvoði olli miklum skemmdum á verslun fyrirtækisins. Nespresso var ein af þeim verslunum sem kom hvað verst út úr brunanum, en verslunin er nú staðsett á fyrstu hæð fyrir framan Útilíf, en áður var hún á annarri hæð.
Sjáið þið fram á það að halda áfram starfsemi í Kringlunni?
„Já, þótt ég geti ekki endilega svarað í hvaða formi það verður því að við vitum ekki hvað uppbyggingin tekur langan tíma,“ segir Karen Ómarsdóttir verslunarstjóri Nespresso í samtali við mbl.is.
Karen segir að fyrirtækið hafi mikla reynslu af rekstri „nanó-bara“, þar sem slíkur bar er einnig starfræktur í Smáralind. Því þótti þeim tilvalið að taka upp slíka starfsemi í Kringlunni á meðan á millibilsástandinu stendur.
„Fyrsta hugsunin var hvort við getum komið okkur fyrir einhver staðar annars staðar til að bregðast við þessu,“ segir Karen.
