Blákaldur veruleiki Íslands

Þórdís Kolbrún segir Ísland þurfa að velta fyrir sér hvert …
Þórdís Kolbrún segir Ísland þurfa að velta fyrir sér hvert framlag þess sé til Atlantshafsbandalagsins. mbl.is/Eyþór

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir núverandi alþjóðaástand gera fælingarmátt Atlantshafsbandalagsins, skuldbindingar aðildarríkja og þétt samstarf þeirra mikilvægara en nokkru sinni.

Ísland þurfi að spyrja sig hvernig bandamaður það vilji vera í Atlantshafsbandalaginu og hvað það geti lagt til. Nauðsynlegt verði að auka útgjöld Íslands til varnarmála enn frekar.

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hefst í dag í höfuðstað Bandaríkjanna, Washington D.C, og stendur til fimmtudags. Fundurinn er með hátíðlegra sniði en oft áður þar sem um er að ræða 75 ára afmæli varnarbandalagsins.

Í tilefni fundarins ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við utanríkisráðherra um meðal annars alþjóðasamstarf, skuldbindingar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og mikilvægi Íslands þegar kemur að varnarsamstarfi.

Aukið mikilvægi Keflavíkur

Þórdís segir fundinn sannarlega vera mikil tímamót en þau komi á erfiðum tímum þegar töluverðar breytingar hafi orðið á alþjóðakerfinu.

Það sé ekki síst vegna þessa að miklar væntingar séu bundnar við fundinn, þá sérstaklega varðandi málefni Úkraínu, langtímastuðning við landið og útgjöld ríkjanna til varnarmála.

Spurð hvort mikilvægi Keflavíkur fari vaxandi í ljósi þeirrar uppbyggingar sem hafi átt sér stað þar í tengslum við Atlantshafsbandalagið játar Þórdís því.

„Keflavíkursvæðið er mikilvægt, ekki bara fyrir íslenska öryggishagsmuni heldur fyrir svæðið í heild sinni. Já, það er að aukast og mun áfram aukast. Ég hef alvarlegar áhyggjur af þróun mála almennt þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og háttsemi – auðvitað fyrst og fremst Rússlands, en annars konar háttsemi annarra ríkja líka.“

Þá segir hún öll ríki á norðurslóðum, utan Rússlands, vera sammála um það að nauðsynlegt sé að halda spennu á svæðinu í lágmarki en ekki ýta undir hana. Yfirsýn sé svæðinu mikilvæg og landfræðileg staða Íslands sömuleiðis. Aukin hætta og breytingar á alþjóðakerfinu geri Keflavíkursvæðið mikilvægara.

Staðan sé því miður þannig að fjárfestingar á svæðinu þurfi að aukast en ekki minnka.

Hvert er okkar framlag?

„Það sem mér finnst að skipti máli í þessu er annars vegar að við spyrjum okkur um öryggis- og varnarhagsmuni Íslands fyrir okkur hér en líka: Hvert er okkar framlag sem verðugur bandamaður í Atlantshafsbandalaginu? Landfræðileg lega okkar er framlag en líka að auka getu þeirra sem mögulega munu þurfa að aðhafast út frá Keflavík, og auðvitað eru þar við æfingar og annað slíkt. Það er líka eitthvað sem við eigum að spyrja okkur,“ segir Þórdís.

„Það er mikilvægt í mínum huga að við séum mjög meðvituð um það að þessi þróun, og það sem er að gerast, varðar okkar beinu hagsmuni á Íslandi. Við erum ekki þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu einvörðungu af almennilegheitum við aðra.

Við erum ekki að taka skýra afstöðu í þessu eingöngu vegna þess að það er það sem er rétt að gera. Þetta eru blákaldir hagsmunir Íslands – að það sé hægt að segja með vissu að fælingarmátturinn sé til staðar og þegar við horfum upp á gamaldags landvinningastríð í Evrópu, sem við töldum okkur ekki þurfa að horfa upp á eftir síðari heimsstyrjöld, hafi það skýrar afleiðingar og það verði stöðvað.“

Treystum á alþjóðalög

Hún segir mikilvægt fyrir Íslendinga að spyrja sig að því hvað yrði um útflutningsgreinar okkar og stöðu sem ferðaþjónustuland ef átök í Evrópu versnuðu áður en þau skánuðu á ný. Ísland treysti á alþjóðakerfi og að alþjóðalög séu virt.

„Þannig að mér finnst mjög mikilvægt að við öll hér á Íslandi áttum okkur á því hvað er að gerast, hver þróunin er, hversu alvarleg hún er, og hugsum aðeins um það hvernig umræða er að eiga sér stað í löndunum í kringum okkur, alveg í næsta nágrenni. Á öllum Norðurlöndunum er búið að auka stjórkostlega varnarútgjöld, ekki af því að þau langar til þess heldur af því að þau meta hagsmuni sína þannig.

Skattar hafa verið hækkaðir, skorið hefur verið niður til menntamála og varúðarráðstafanir gerðar í alls konar formi gagnvart almenningi í landinu. Við erum sannarlega fjær vígaslóð en mörg önnur lönd en við erum ekki ónæm fyrir því sem er að gerast í kringum okkur.“

Kallar á skýran stuðning

Aðspurð segist hún vilja sjá Ísland taka það alvarlega að vera aðildarríki Atlantshafsbandalagsins – að vera verðugur bandamaður.

„Við höfum verið að auka útgöld til varnarmála, við munum þurfa að auka útgjöld til varnarmála enn frekar. Við þurfum að þétta enn frekar samstarf við okkar helstu bandalagsþjóðir, bæði í gegnum Atlantshafsbandalagið en líka í gegnum svæðisbundið samstarf […] Við þurfum að vera meðvituð um það að við erum ekki ónæm fyrir því sem er að gerast og efla hér bæði getu og þekkingu sömuleiðis. Þetta eru mörg púsl, en við erum algjörlega fær um að gera þetta.

Það þarf forystu um það, sem ég hef veitt, og mun gera áfram. Ég veit að það tekur tíma að melta þessa breyttu veröld og ég hef fullan skilning á því, en stjórnmálamenn, fjölmiðlar, akademían – við verðum að koma þessu stöðumati á framfæri og vera tilbúin að eiga um það pólítíska forystu og kjark til þess að taka ákvarðanir í samræmi við það. Það mun kalla, til að mynda, á aukin útgjöld til varnarmála og þennan skýra stuðning sömuleiðis áfram fyrir Úkraínu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert