„Sennilega öruggasti golfvöllurinn á Íslandi“

Húsatóftavöllur í Grindavík.
Húsatóftavöllur í Grindavík. mbllis/Eggert Jóhannesson

Húsatóftavöllur í Grindavík opnar fyrir leik á öllum brautum golfvallarins í dag.

„Það er engin hætta hér, við værum ekki með opið ef þetta væri hættulegt. Við höfum verið í nánu samstarfi við almannavarnir og það er búið að jarðvegsskanna allan völlinn, þannig að ég get fullyrt það að við erum sennilega öruggasti golfvöllurinn á Íslandi, þótt víðar væri leitað,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

„Völlurinn í frábæru ástandi“

Helgi segir að brautir þrettán til sautján, sem staðsettar eru fyrir neðan Nesveg, verði opnaðar í dag og þar með sé hægt að spila allar átján brautirnar. 

Eruð þið bjartsýn á að halda öllum brautum opnum í sumar?

„Já, já, svo lengi sem það fer ekki að gjósa aftur og við neyðumst til að loka, þá horfum við bjartsýn á restina af sumrinu,“ segir Helgi.

Hann segir völlinn í frábæru ástandi og að það hafi sáralítið þurft að laga eftir jarðhræringarnar, enda sé hann í töluverðri fjarlægð frá Grindavík. Einn teigur hafi skemmst en hann hafi verið færður til, svo þau hafi sloppið mjög vel. 

Helgi segir aðsóknina ekki hafa verið góða síðustu mánuði en hann finni fyrir auknum áhuga.

Ævintýraferð að heimsækja golfvöllinn

„Við vonum að sem flestir komi og spili á geggjuðum golfvelli, það eru allar leiðir opnar að vellinum þannig að fólk getur keyrt Grindavíkurveginn,“ segir Helgi.

Þeir sem eiga bókaðan tíma þurfi aðeins að sýna að þeir eigi rástíma og þá sé þeim hleypt í gegn.

„Þar blasir við stórkostlegt útsýni yfir nýja hraunið og það er ævintýraferð að heimsækja okkur,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert