Andlát: Kári Árnason

Kári Árnason, íþróttakennari á Akureyri og fv. landsliðsmaður í knattspyrnu, lést á dvalarheimilinu Hlíð 2. júlí síðastliðinn, 80 ára að aldri.

Kári fæddist á Akureyri 25. febrúar 1944. Foreldrar hans voru Ingunn Elísabet Jónsdóttir og Árni Friðriksson.

Kári ólst upp á Akureyri og fékk snemma áhuga á íþróttum. Lék knattspyrnu með Íþróttabandalagi Akureyrar, ÍBA, á árunum 1960 til 1974 og varð bikarmeistari með liðinu 1969. Skoraði hann sigurmarkið í 3:2 sigri gegn Skagamönnum. Kári var marksækinn framherji, skoraði 42 mörk fyrir ÍBA í efstu deild og varð markakóngur deildarinnar 1968 og markahæstur í næstefstu deild fjórum árum síðar. Eftir að KA og Þór fóru hvort í sína áttina með lið í efstu deildum lék Kári tvö tímabil með KA; 1975-1976.

Kári lék 11 leiki með íslenska landsliðinu á árunum 1961-1971 og skoraði eitt mark, gegn Spánverjum 1967. Hann tók einnig þátt í landsleiknum fræga gegn Dönum, sem tapaðist 14:2 í Kaupmannahöfn sumarið 1967.

Kári var KA-maður að upplagi og tók virkan þátt í uppbyggingu félagsins með ómældu sjálfboðaliðastarfi. Hann stundaði nám í Íþróttakennaraskólanum og starfaði lengi sem íþróttakennari í Brekkuskóla og síðar almennur kennari þar.

Kári hafði mikinn áhuga á útivist hvers konar, var virkur félagi í Ferðafélagi Akureyrar og gekk m.a. á alla tinda Eyjafjarðar, þar af margsinnis á bæjarfjallið Súlur og færði þær ferðir í dagbækur allt aftur til 1961.

Eftirlifandi eiginkona Kára er Ásdís Þorvaldsdóttir, f. 1944. Dætur þeirra eru Elva María, f. 1964, Katrín, f. 1969, og Erna, f. 1971. Barnabörnin eru sex talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert