Ekkert eftirlit og gagnrýnin hugsun á undanhaldi

Ekkert eftirlit er með kennslu í íslenskum grunnskólum, þar sem stór hluti nemenda virðist ekki ná tökum á grunnhæfni í lesskilningi, stærðfræði eða læsi á náttúruvísindi ef marka má niðurstöður síðustu PISA-könnunar.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, hefur miklar áhyggjur af þróun mála.

Telur hann skort á grunnhæfni í lesskilningi meðal annars hefta þátttöku fólks í lýðræðissamfélagi, draga úr gagnrýninni hugsun og gera það ginnkeyptara fyrir áróðri hagsmunaafla.

Skólar geta gert það sem þeir vilja

„Núna geta skólar í raun gert það sem þeir vilja án nokkurs eftirlits eða eftirfylgdar. Ef að skóla vantar kennara til dæmis í náttúruvísindum, þá er ekkert víst að náttúruvísindi séu kennd í skólunum,“ segir Jón Pétur í Dagmálum þar sem íslenska menntakerfið er til umræðu.

„Það er ekkert sem kallar beint á það. Það er enginn sem fylgist með því eða skólinn lendir ekki í neinum vandræðum með það, annað en heldur bara að nemendur verða af tækifærum.“

Hér geta áskrifendur nálgast viðtalið í heild sinni:

„Núna geta skólar í raun gert það sem þeir vilja …
„Núna geta skólar í raun gert það sem þeir vilja án nokkurs eftirlits eða eftirfylgdar,“ segir Jón Pétur. mbl.is/Hari

Auðveldara að blekkja fólk og stýra því

„Þegar maður segir þetta, að helmingur drengja og einn þriðji stúlkna geti ekki skilið einfaldan upplýsingatexta, þá þýðir það bara það að þau geta ekki hlustað á fréttir, þau geta ekki lesið blöðin. Það verður auðvelt að einhvern veginn stýra fólki sem hefur ekki þessa kunnáttu og getu til að greina kjarnann frá hisminu.“

Börn og fullorðnir geri sér oft ekki grein fyrir að á bak við upplýsingar séu stundum hagsmunir. Þá séu upplýsingar sem birtast oft rangar.

„Það er auðveldara að blekkja fólk og stýra fólki ef það hefur ekki þessa getu til að geta skilið einfaldan upplýsingatexta. Fréttir eru í raun einfölduð mynd af miklum flóknari veruleika. Ég er alveg viss um það að þeir sem skrifi fréttir hér reyni að hafa þær svona stuttar og hnitmiðaðar og þannig að það sé auðvelt að skilja þær, en meira að segja þannig fréttir skilja þessir nemendur ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert