Ferðamönnum fækkaði um 9% í júní

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 212 þúsund í nýliðnum júní samkvæmt mælingum Ferðamálastofu.

Um er að ræða 21 þúsund færri brottfarir en mældust í júní í fyrra sem er samdráttur upp á 9 prósent.

Flestar brottfarir í júní voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, 81.300 talsins, um 19,5% færri en í júní í fyrra. Þjóðverjar voru í öðru sæti, um 14.600 talsins eða um 7,6% heildarbrottfara í júní. Um er að ræða 17,5% færri brottfarir Þjóðverja en i júní í fyrra. 

Brottfarir Breta voru í þriðja sæti eða 4,6% af heild og Pólverjar í því fjórða (4,4%). Þar á eftir fylgdu Kanadamenn (4,2%), Frakkar (3,6%), Kínverjar (3,3%), Hollendingar (2,8%), Ítalir (2,6%) og Spánverjar (2,4%).

Frá áramótum hafa um 963 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 953 þúsund talsins. Um er að ræða 1,0% fjölgun milli ára. Samtals voru brottfarir á tímabilinu janúar til júní í ár um 93,7% af þeim brottförum sem mældust á sama tímabili metárið 2018.

Brottfarir Íslendinga voru um 65 þúsund í júní, 9.600 fleiri en í júní 2023 (+17,3%). Frá áramótum (janúar-júní) hafa um 298 þúsund Íslendingar farið utan en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 293 þúsund. Um er að ræða 1,6% fjölgun milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert