Geta troðið rannsóknarhagsmunum þangað sem sólin aldrei skín

Sveinn Andri segir lögreglu þegar hafa refsað skjólstæðingi sínum.
Sveinn Andri segir lögreglu þegar hafa refsað skjólstæðingi sínum. Samsett mynd

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður er nýr verjandi viðskiptamannsins Quang Lé. Hann segir lögreglu hafa farið offari í aðför að skjólstæðingnum sem og eiginkonu hans og bróður.

Fyrri verjandi Quang Lé hefur tekið yfir málsvörn eiginkonu hans. 

Í samtali við mbl.is kveðst Sveinn telja sig vissan um að sagan hefði ekki verið sú sama væri skjólstæðingur hans hvítur, íslenskur karlmaður úr viðskiptalífinu. 

Hann segir mikilvægt að hafa til hliðsjónar að fólk frá löndum eins og Víetnam geti óttast lögreglu, yfirvöld eða mögulega brottvísun, sem geti haft áhrif á framburð þeirra.

Ekkert réttlæti að hans mati þær sjö vikur sem sakborningarnir þrír þurftu að verja í einangrun í alls 15 vikna löngu gæsluvarðhaldi. 

Eiginkonan illa leikin eftir einangrunina

„Að mínu mati er það engin hemja í máli sem er ekki flóknara en raun ber vitni að menn séu inni [í einangrun] í sjö vikur.“ 

Segir Sveinn það almennt mat fagaðila að meira en þriggja vikna löng einangrun geti haft varanleg áhrif á heilsu fólks. Hann telji fyrst og fremst um þvingunarráðstöfun af hálfu lögreglu að ræða í þeim tilgangi að fá fólk til þess að segja það sem hún vilji heyra.

Segir hann eiginkonu skjólstæðings síns verst leikna eftir vikurnar sjö og kveðst hafa hvatt hana til að leita sér aðstoðar í kjölfarið.

„Ef þetta eru rannsóknarhagsmunir, versus hætta á varanlegu heilsutjóni, þá segi ég bara að þeir geta troðið þessum rannsóknarhagsmunum á þann stað sem sólin aldrei skín.“

Ætti að duga skemmri tími til að taka skýrslur

„Það er alveg útilokað að sjá hvaða rannsóknarhagsmunir eru af þessu,“ segir Sveinn.

Spurður hvort ekki kunni að vera tilefni til í ljósi þess að um sé að ræða eitt umfangsmesta mál af þessu tagi á síðari tímum og eflaust mikið af þýðingarvinnu og öðru slíku, svarar Sveinn neitandi.

Ekki sé um svo marga starfsmenn að ræða og í raun ekkert sem réttlæti þann tíma sem sakborningarnir hafi þurft að verja í einangrun. Rannsóknarhagsmunir snúi fyrst og fremst að því að ná að taka skýrslur af vitnum sem séu ómenguð.

„Manni dugar nú mun skemmri tími en sjö vikur til að tala við alla sem koma að málinu,“ segir Sveinn.

Ekkert sem meini Quang Lé að hitta fyrrverandi starfsfólk

En þegar honum er sleppt þá fer hann rakleiðis á nýjan vinnustað meints brotaþola. Er það ekki til merkis um að mögulega hafi þetta langa gæsluvarðhald tengst rannsóknarhagsmunum?

„Þetta var nú bara einhver einstakur aðili sem hafði tekið yfir viðskiptin hjá honum. Það hefur ekkert með það að gera að hafa einhver áhrif á þessa vitneskju. Það er heldur ekkert sem bannar honum að tala við fyrrverandi starfsfólk sitt. Þá erum við heldur ekki að tala um rannsóknarhagsmuni,“ segir Sveinn.

„Ætlarðu að hafa hann í einangrun eða gæsluvarðhaldi af því hann má ekki hitta þetta fólk? Þá erum við ekki lengur að tala um rannsóknarhagsmuni. Þá er mönnum haldið í gæsluvarðhaldi af því þeir eru hættulegir umhverfi sínu eða það eru almannahagsmunir af því að halda mönnum inni. En það eru ekki rannsóknarhagsmunir þegar það er búið að taka skýrslur af þessu fólki.“

Fólk óttist lögreglu og byrji að „fabrikkera“

Nú er vitað að fórnarlömb í mansalsmálum eiga oft erfitt með eða þora jafnvel ekki að tjá sig. Kann það ekki að skýra hve langan tíma það hefur tekið að taka skýrslur af vitnum og afla gagna? 

„Þá er líka hinn vinkillinn því þetta er tvíþætt. Maður verður að átta sig á því að þetta fólk sem kemur frá Víetnam – það er ekki vant sömu lögreglutökum hér og í sínu heimalandi. Í þeirra heimalandi er náttúrulega tvíræðni í gangi og ofbeldi af hálfu lögreglunnar sem kemur frá þessum ríkjum,“ segir Sveinn. 

„Þá er auðvitað inngróinn mikill ótti hjá þessu fólki við lögregluna. Þannig þegar verið er að þrýsta á fólk, bæði af ASÍ og lögreglunni, að segja hluti og samræma kenningum lögreglunnar, þá er ekkert skrítið að fólk gefi eftir og fari að fabrikkera.“

Lögregla og fjölmiðlar búin að refsa honum

Segir hann fjölmiðla hafa blásið út heimsókn Quang Lé til fyrrverandi starfsmanns síns, eins og margt annað í málinu. Það sé ekkert nýtt í sakamálum að sakborningar hitti vitni eða brotaþola til að spjalla við þau. 

„Meðferðin og meðhöndlun fjölmiðla á manninum er búin að vera eins og í villta vestrinu þegar menn eru hengdir án dóms og laga. Það er bara gleypt hrátt það sem hefur komið frá lögreglunni.“

Að hans sögn hefur Quang Lé ekki einungis verið tekinn af lífi í fjölmiðlum heldur sé einnig búið að rústa starfsemi hans og fjármálum. Hann megi ekki nýta neitt húsnæði sem hann eigi eða jafnvel opna persónulega bankabók sína. 

„Það verður að vinda einhvern bráðan bug að því að maðurinn geti haft í sig og á og nýtt þær eignir sem hann á.“

Aðspurður segist Sveinn ekki telja um eðlilegt ferli að ræða. Hann hafi séð bankareikninga og eignir frystar en aldrei hafi hann séð jafn harkalega fram gengið og í þessu máli. Hann spyrji sig hvort ríkið muni bæta skjólstæðingi hans tapið verði hann sýknaður. 

„Það eru tvö félög farin í þrot sem hann rak. Vegna þess að lögreglan er búin að refsa honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert