Ísland í öðru sæti á HM

Frá upphafi viðureignar Íslands og Bandaríkjanna í gær.
Frá upphafi viðureignar Íslands og Bandaríkjanna í gær. Ljósmynd/Skáksambandið

Lið Íslands er í öðru sæti á HM landsliða í skák 50 ára eldri eftir 3:1-tap gegn Bandaríkjunum í gær en mótið fer fram í Kraká í Póllandi.

Jóhann Hjartarson og Þröstur Þórhallsson gerðu jafntefli en Margeir Pétursson og Jón L. Árnason töpuðu. Helgi Ólafsson hvíldi en fjórir tefla í einu. Allir eru þeir stórmeistarar.

Bandaríkjamenn tróna á toppnum með 12 stig og eru í vænlegri stöðu þar sem þeir hafa teflt við allar sterkustu sveitirnar. Veitt eru tvö stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli.

Íslendingar og Ítalir hafa 11 stig. Íslendingar standa betur að vígi í baráttunni um silfrið. Þeir hafa 20 vinninga en Ítalir 18½ vinning en vinningar telja ef lið eru jöfn að stigum. Alls taka 32 sveitir þátt í mótinu.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram í dag. Þá tefla Íslendingar við lið Slóvakíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert